Fara í efni

Fréttir

Árgangur 1950 er orðinn fjölmennastur

Elstur Hvergerðinga er Friðrik Marteinsson sem fæddur er árið 1921 og verður hann 97 ára í nóvember 2018. Næst elst er Fjóla Ólafsdóttir sem fædd er ári síðar eða 1922 en þriðji elsti Hvergerðingurinn er Guðjón Kr. Pálsson sem fæddur er árið 1924. Fimmtán Hvergerðingar eru komir yfir nírætt.

Hraðhleðslustöð í Hveragerði

Þjónusta við eigendur rafbíla jókst umtalsvert hér í Hveragerði nýverið þegar Orka náttúrunnar tók í notkun nýja hlöðu fyrir rafbílaeigendur við þjónustustöð Skeljungs í Hveragerði. Hún er búin hvort tveggja hraðhleðslu og hefðbundinni. Hlöður ON eru nú orðnar 25 talsins, í öllum landsfjórðungum og hringvegurinn verður orðinn vel fær rafmagnsbílum fyrir páska 2018.

1.316.000,- til Barnaspítala Hringsins

Börn og ungmenni í grunnskólanum hér í Hveragerði afhentu stjórnarkonum í Kvenfélaginu Hringnum kr. 1.316.000,- í hinum árlega opna gangasöng sem haldinn var nýverið.

Við getum verið afskaplega stolt af ungu kynslóðinni okkar, og starfsmönnum grunnskólans sem með dugnaði, frumkvæði og mikilli gleði stóðu fyrir gríðarlega vel heppnuðum góðgerðardegi þar sem alls konar handverk og veitingar voru til sölu. Var slegist um vörurnar enda er afrakstur dagsins í takt við það.

Það er fátt dýrmætara en gott skólastarf og mannvænleg ungmenni og þar eigum við Hvergerðingar stóran fjársjóð.

Kærar þakkir til ykkar allra !


Jólatré ársins er úr Arnarheiði

Sú hefð hefur skapast hér í Hveragerði að jólatré bæjarbúa sem staðsett er í smágörðunum er ávallt gjöf frá bæjarbúum sem nýta þetta tækifæri til að gefa trjám framhaldslíf sem ekki rúmast lengur í einkagarðinum.

Í ár eru það hjónin Jenný Hugrún Wiium og Þorsteinn Hansen sem gáfu jólatréð en þau búa í Arnarheiði. Jólatréð sem nú prýðir smágarðana hefur í áraraðir verið afar fallega skreytt um jól og verið til mikillar prýði í götunni. En núna var komið að leiðarlokum og því fékk tréð þetta góða hlutverk að gleðja alla bæjarbúa á aðventu og um hátíðina. Það voru síðan barnabörnin þau Jenný Sigrún og Maríus sem fengu það hlutverk að tendra ljósin á trénu á fyrsta sunnudegi í aðventu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá er það ekki einfalt verk hvorki að fella, flytja eða koma niður jólatré bæjarins og eiga starfsmenn áhaldahúss heiður skilinn fyrir þá vinnu eins og reyndar við alla vinnu við skreytingar bæjarins sem þeir eiga allan heiður af.

Meðfylgjandi myndir af flutningi trésins tók Höskuldur Þorbjarnarson, umhverfisfulltrúi.

Getum við bætt efni síðunnar?