Fara í efni

Stöðuskýrsla bæjarstjóra 2. apríl 2020

Stöðuskýrsla v. COVID - 19 nr. 3

Að lokinni annasamri viku þar sem stjórnendur og starfsmenn Hveragerðisbæjar unnu hörðum höndum að því að undirbúa stofnanir og breyta þjónustu í samræmi við bestu leiðbeiningar vegna COVID-19 hefur tekið við tímabil sem einkennst hefur af meiri rólegheitum. Ferlar eru að virka vel og starfsemi stofnana hefur aðlagast þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Samkomubann hefur verið framlengt til loka apríl mánaðar þannig að ljóst er að við erum að hefja langhlaup sem tekið getur í á mörgum stöðum.

Nú sem áður hefur verið unnið ötullega að því markmiði að tryggja bæjarbúum öryggi og eins góða þjónustu og hægt er miðað við aðstæður. Hægt hefur á samfélaginu þannig að eftir er tekið og verkefni litast flest með einum eða öðrum hætti af viðbrögðum við COVID-19 þó áfram sé unnið að daglegum störfum eins og nokkur er kostur.

Eftirfarandi er staða einstakra stofnana í bæjarfélaginu.

Bæjarskrifstofa:
Bæjarskrifstofu hefur verið lokað fyrir óviðkomandi umferð og tekið fyrir allar heimsóknir svo hægt sé að tryggja órofna starfsemi eins og mögulegt er. Lágmarksmönnun starfsmanna er á skrifstofu þannig að skipt hefur verið í tvær vaktir og er unnið þrjá daga aðra vikuna en tvo daga hina. Sími er opinn á hefðbundnum vinnutíma og símtöl send í GSM síma þeirra starfsmanna sem ekki eru við vinnu á bæjarskrifstofu þann dag. Annars óbreytt ástand á skrifstofu frá fyrri viku. Einn starfsmaður er heima í sóttkví. Jafnlaunavottun er á lokastigi og síðari hluti vottunar fer fram 20. apríl. Í dag fer fram rýni stjórnenda.

Fjármál:
Allt óbreytt frá því síðast. Enn höfum við ekki orðið vör við að hægst hafi á innborgun á reikningum en það mun væntanlega gerast um mánaðamótin. Staðgreiðsla hefur borist eins og venjulega en hún hefur lækkað til mikilla muna. Það hefur gerst fyrstu mánuði ársins þannig að þar eru áhrifa covid samt ekki enn farið að gæta. Virðist vera ljóst að tekjur muni lækka verulega frá áætlunum. Óskað hefur verið eftir greiningu frá Motus til að hægt sé að fylgjast með þróun innheimtuhlutfalls í sveitarfélaginu.

Grunnskólinn í Hveragerði:
Skólinn heldur úti skólastarfi fyrir börn foreldra í framlínustörfum og forgangshópa. Um 12 börn hafa verið að mæta á dag þannig að ljóst er að fjöldi fólks heldur börnum sínum heima þrátt fyrir að mega nýta sér skólann. Kennara sinna kennslu sinna hópa með fjölbreyttum hætti með fjartengingum. Starfsmannahópnum er skipt upp í þrjá hópa. Reiknað er með skólahaldi með þessu sniði fram yfir páska en þá taki við skólahald allra með þeim takmörkunum sem sóttvarnalæknir hefur sett fram. Forgangsverkefni eru 10. bekkingar sem eru að fara að útskrifast við þessar sérstöku aðstæður.

Bungubrekka:
Óbreytt frá síðustu viku.


Íþróttamannvirki:
Staðan er óbreytt frá síðustu viku.. Starfsmenn hafa að jafnaði verið á starfsstöð í um 4 klst á dag eða í samkomulagi við menningar og frístundafulltrúa. Unnið hefur verið að þrifum og léttum viðhaldsverkefnum. Ákveðið var í samstarfi við forsvarsmenn Laugasports að taka vel í gegn og endurskipuleggja. Málaðir voru 2 veggir og einhver tæki voru fjarlægð. Menningar- og frístundafulltrúi er að vinna tillögur að afþreyingu og gönguferðum fyrir íbúa sem kynntar verða fyrir páska. Varðandi Varmahliðarhúsið hafa erlendir listamenn miklar áhyggjur af dvöl sinni og ljóst að breyta verður dvalartíma margra.

Bókasafn:
Staðan er óbreytt frá síðustu viku. Bókasafnið hefur verið lokað frá 23. mars. Starfsfólk mun skipta með sér vöktum og taka á móti pöntunum á bókum og öðrum safngögnum í síma og tölvupósti. Hægt er að fá heimsendar (innanbæjar).

Listasafn Árnesinga:
Safninu hefur verið lokað í samræmi við tilmæli um samkomubann en starfsmenn hafa nóg að gera við tiltekt og undirbúning sýninga síðar á árinu.

Upplýsingamiðstöðin:
Staðan í Upplýsingamiðstöðinni er óbreytt. Dögunum er skipt niður á starfsmenn og er bara 1 á vakt. Lokað er um helgar. Allir hjá okkur eru frískir. Það er lítið að gera, engir ferðamenn en bæjarbúar eru aðeins að koma við hjá okkur að sækja sendingar. Þar sem engin sala á túristavörur á sér nú stað þá voru tekin inn púsluspil en það virðist vera samkvæmt Facebook mjög vinsæl afþreying í dag. Vonast er til að að bæjarbúar grípi einn og einn kassa í leiðinni og þeir sækja pakka.

Leikskólar Óskaland
Óbreytt staða frá fyrri viku. Leikskólar eru opnir fyrir forgangsbörn og eru rétt um 20 börn mætt (ríflega 30 samþykktar umsóknir) og 10 starfsmenn í vinnu. Einn starfsmaður er í sóttkví en aðrir eru mættir nema önnur lögmæt forföll hamli. Starfsemi í húsi gengur vel og allir rólegir og ánægðir. Ljóst er að fjöldi fólks heldur börnum sínum heima þrátt fyrir að þau hafi aðgang að þjónustu leikskólans.

Leikskólinn Undraland:
Leikskólar eru opnir fyrir forgangsbörn og eru rétt um 10 börn mætt á Undralandi (21 samþykkt umsóknir) og 12 starfsmenn í vinnu. Þrír starfsmenn eru í sóttkví en aðrir eru mættir nema önnur lögmæt forföll hamli. Starfsmönnum er skipt í þrjá hópa og hver hópur vinnur þrjá daga, einn hópur því í húsi í einu. Ljóst er að fjöldi fólks heldur börnum sínum heima þrátt fyrir að þau hafi aðgang að þjónustu leikskólans.

Heimaþjónusta:
Heimaþjónustan hefur gengið vonum framar. Allir starfsmenn eru í vinnu. Nú þegar hafa 15 notendur afþakkað þjónustu vegna Covid-19 og fjögur heimili eru í sóttkví. Þjónustu við forgangshópi 3 hefur verið hætt og hringt er hálfsmánaðarlega í þann hóp til að kanna hvernig staðan er. Hringt er í alla áður en farið er inn á heimili til þess að taka stöðu varðandi heilsufar og hvort notandi vilji þiggja þjónustu og komum til með að láta alla vita ef einhverjar breytingar verða á þjónustu. Umfram allt þá er verið í góðum samskiptum við alla þá einstaklinga sem eru í forgangsh. 1.


Heimilið Birkimörk:
Starfsemi er óbreytt frá því síðast. Í samvinnu félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið unnið að stofnun bakvarðasveitar m.a. fyrir heimili fyrir fatlað fólk og vettvangur tryggður til að treysta rekstur þeirrar heimila. Nú fer heimilisfólk ekkert út af heimilinu í VISS eða tómstundir þannig að manna þarf starfsemina með öðrum hætti en áður hefur verið gert.

Umhverfisdeild og veitur:
Staðan er óbreytt frá því síðast. Gámasvæði er ennþá opið með óbreyttum hætti. Starfsmaður fráveitumannvirkis sinnir ekki öðrum verkefnum. Starfsmenn hafa slegið inn ljósastaurum.

Bygginga, skipulags- og tæknideild:
Starfsemi er hefðbundin og starfsmenn eru komnir með tengingar heim þannig að mögulegt verður að sinna allri starfsemi þrátt fyrir að starfsmenn séu ekki á staðnum. Staðan er óbreytt frá síðasta fundi og starfsmenn sinna sínum störfum heima við.

Almennt:
Samkvæmt nýjustu tölum þá eru 7 smitaðir og 42 í sóttkví í Hveragerði. Heimild hefur verið gefin til birtingar á þessum tölum eftir umræður í síðustu viku.

Ný lög hafa verð sett um tilfærslu opinberra starfsmanna á neyðarstigi Almannavarna. Bæjarstjóri mun kanna hvort nauðsynlegt reynist að grípa til þessara aðgerða sérstaklega sviði félagsþjónustu þar sem mögulega kann að vanta fleiri einstaklinga til að sinna þeim verkefnum sem nú þarf að sinna.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

 

Síðast breytt: 03.04.2020