Rafræn vöktun
Upplýsingagjöf
Í Sundlauginni Laugaskarði eru eftirlitsmyndavélar sem taka upp myndefni. Um er að ræða rafræna vöktun sem fer fram í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“) og reglur nr. 50/2023 um rafræna vöktun. Hér er að finna upplýsingar um vöktunina sem sveitarfélaginu ber að veita einstaklingum samkvæmt persónuverndarlögum.
Tilgangur og lagagrundvöllur vöktunar
Eftirlitsmyndavélar í Sundlauginni Laugaskarði eru settar upp í öryggis- og eignavörslutilgangi. Upptaka og önnur meðferð myndefnis fer því fram á grundvelli lögmætra hagsmuna sem fólgnir eru í að tryggja öryggi manna og muna. Vinnsla persónugreinanlegra upplýsinga styðst við heimild í 6. tölul. 9. gr. persónuverndarlaga.
Á sundlaugum hvílir einnig sérstök skylda samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum að tryggja öryggi og fylgjast stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði, til dæmis í gegnum myndavélar ef það er nauðsynlegt. Rafræn vöktun í Sundlauginni Laugaskarði byggir því einnig á heimild í 3. tölul. 9. gr. persónuverndarlaga.
Aðgangur að myndefni
Rauntímamyndefni úr eftirlitsmyndavélum er aðgengilegt starfsmönnum sem sinna laugargæslu en einungis forstöðumaður og vaktstjóri hafa aðgang að upptökum. Þær eru einungis skoðaðar ef ástæða er til, svo sem ef slys hefur orðið eða grunur er uppi um refsiverðan verknað.
Miðlun myndefnis
Þegar um ræðir slys eða refsiverðan verknað kann myndefni að vera miðlað til lögreglu. Þá kann slíku myndefni að vera miðlað, ef það er nauðsynlegt, til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja, til dæmis þegar tryggingafélag þarf að taka afstöðu til bótaskyldu. Að öðru leyti er myndefni ekki miðlað nema mælt sé fyrir um slíkt í lögum eða samþykki þess sem upptaka er af liggur fyrir.
Varðveislutími myndefnis
Myndefni sem til verður við rafræna vöktun í Sundlauginni Laugaskarði er varðveitt í 30 daga. Myndefni kann þó að vera geymt lengur ef það ber með sér upplýsingar um slys eða refsiverðan verknað og þá eins lengi og nauðsyn ber til.
Réttur þeirra sem koma fyrir á myndefni
Sá sem kemur fyrir á myndefni á rétt á að skoða gögn, og eftir atvikum fá afrit af persónuupplýsingum, sem verða til um hann við vöktunina. Sá réttur er þó háður því skilyrði að hann skerði ekki réttindi annarra.
Einstaklingur sem sætir vöktun á jafnframt rétt á að andmæla henni.
Vilji viðkomandi nýta réttindi sín skal beiðni þess efnis send á persónuverndarfulltrúa Hveragerðisbæjar í gegnum netfangið personuvernd@hveragerdi.is, sjá einnig nánari upplýsingar um persónuverndarfulltrúa að neðan.
Persónuverndarfulltrúi
Hveragerðisbær hefur tilnefnt persónuverndarfulltrúa í samræmi við persónuverndarlög. Persónuverndarfulltrúi sveitarfélagsins er Karl Hrannar Sigurðsson. Þeir sem koma fyrir á myndefni og hafa frekari spurningar um rafræna vöktun, eða vilja nýta réttindi sín, geta sent erindi á Karl í gegnum netfangið personuvernd@hveragerdi.is.
Eftirlitsaðili
Persónuvernd hefur eftirlit með því að rafræn vöktun fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Sá sem kemur fyrir á myndefni getur lagt fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur sveitarfélagið fara gegn ákvæðum persónuverndarlaga. Nánari upplýsingar um Persónuvernd má finna á vef stofnunarinnar, www.personuvernd.is.
Ábyrgðaraðili
Hveragerðisbær er ábyrgðaraðili rafrænnar vöktunar sem viðhöfð er í Sundlauginni Laugaskarði.
Samskiptaupplýsingar ábyrgðaraðila:
- Hveragerðisbær, kt. 650169-4849
- Breiðumörk 20, 810 Hveragerði
- Símanúmer: 483-4000
- Netfang: mottaka@hveragerdi.is