Fara í efni

Stöðuskýrsla bæjarstjóra 29. apríl 2020

Stöðuskýrsla v. COVID - 19 nr. 5

Útför hjónanna Jóninnu Pétursdóttur og Reynis Guðmundssonar fór fram miðvikudaginn 15. apríl með þeim hætti sem mögulegt var miðað við aðstæður í samfélaginu. Bæjarbúar vottuðu þeim virðingu sína og fjölskyldum þeirra samúð með því að fjölmenna meðfram Hverahlíð og Breiðumörk þegar líkfylgdin ók framhjá. Var það áhrifamikil stund.

Ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðapakka 2 með fjölbreyttum aðgerðum fyrir fyrirtæki og fjölskyldur í landinu. Jafnframt hafa verið kynnta tilslakanir á samkomubanni sem taka munu gildi þann 4. maí.

Allar stofnanir Hveragerðisbæjar munu í næstu viku vinna að nauðsynlegum aðgerðum í takti við tilmæli sóttvarnalæknis. Í aðgerðapakkanum eru fjölmörg atriði sem beint og óbeint munu leggja sveitarfélögum lið við þeirra starf sem framundan er þó ljóst sé að krefjandi verkefni á mörgum sviðum séu framundan sem óhjákvæmilegt er að sveitarfélögin fái styrk til frá ríki.


Meðfylgjandi stöðuskýrslu þessari eru fundapunktar bæjarstjóra af fundum Aðgerðarstjórnar Suðurlands sem haldnir eru núna þrisvar í viku að jafnaði auk fundapunkta af fundi Vettvangsstjórnar Hveragerðisbæjar sem fundar núna einu sinni í viku.

Eftirfarandi er staða einstakra stofnana í bæjarfélaginu.

Bæjarskrifstofa:
Bæjarskrifstofu hefur verið lokað fyrir óviðkomandi umferð og tekið fyrir allar heimsóknir svo hægt sé að tryggja órofna starfsemi eins og mögulegt er. Óbreytt ástand á skrifstofu frá fyrri skýrslu, þó örlar á því að einstaka starfsmaður sjáist oftar á skrifstofunni en áður. Í næstu viku veður ákveðið með framhald vegna breytinga á samkomubanni er verða í maí. 

Fjármál:
Allt óbreytt frá því síðast. Haldið er utan um kostnað vegna Covid-19. Atvinnuleysi hefur aukist og stefnir í áður óþekktar hæðir. Þann 15. apríl stefndi atvinnuleysi þess mánaðar í 15,3% en 203 voru þá skráðir atvinnulausir í sveitarfélaginu. Svo virðist sem svörtustu spár séu að rætast og jafnvel í við verr en gert var þar ráð fyrir. Ljóst að framlög úr jöfnunarsjóði munu minnka en unnið er að sviðsmyndagreiningu á þeirri stöðu.

Grunnskólinn í Hveragerði:
Skólahald hófst með takmörkunum í samræmi við tilmæli þann 14. apríl – þriðjudaginn eftir páska.

Skólastarf hefur gengið vel. Undir 10 eru á forgangslista. Skólastjórnendur hafa áhyggjur af nemendum með veikt bakland en að mörgu er að hyggja í jafn miklu óvissu ástandi og nú ríkir. Skoða þarf fyrirkomulag skólaferðalaga í vor og huga jafnframt að starfsemi næsta skólaárs. Tekin hefur verið fyrsta skóflustungan að nýrri viðbyggingu og framkvæmdir hefjast á næstu dögum.

Bungubrekka:
Óbreytt staða. Örfá börn hafa verið að mæta. Búið er að skipta börnunum í hópa og aðgreining er tryggð. Félagsmiðstöðin er lokuð og Samfés ballið er fellt niður.

Íþróttamannvirki:
Staðan er óbreytt frá síðustu viku hvað varðar lokanir. Stefnir í breytingar hvað það varða í byrjun maí.

Bókasafn:
Bókasafninu hefur verið lokað og heimsendingum hætt eftir tilmæli þar um frá landlæknisembættinu.

Listasafn Árnesinga:
Safninu hefur verið lokað í samræmi við tilmæli um samkomubann þannig að staða þar er óbreytt.

Upplýsingamiðstöðin
Staðan í Upplýsingamiðstöðinni er óbreytt. Dögunum er skipt niður á starfsmenn og er bara 1 á vakt.

Lokað er um helgar. Hveragarðurinn er lokaður þar til annað verður ákveðið.

Leikskólinn Undraland og Óskaland:
Leikskólarnir opnuðu fyrir alla eftir páska með takmörkunum í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis. Forgangshópur mætir alltaf í takt við vinnu foreldra. A og B hópur mætir 2 daga í senn. Starfsmönnum skipt upp með sama hætti og engin blöndun er á milli hópa. Forráðamenn 9 barna hafa tilkynnt að þau muni ekki að mæta í leikskólann. Með góðu skipulagi er reynt eftir megni að tryggja almennar sóttvarnir sem og að blanda ekki hópum.

Félagsþjónusta/heimaþjónusta:
Unnið er eftir forgangslistum en færri barnaverndartilkynningar eru að koma inn, sem er í takt við stöðuna annars staðar. Vandi barna dylst nú frekar þar sem þau eiga ekki lengur skjól í skóla og frístundastarfi og fáir til að tilkynna um það sem betur má fara. Auknir erfiðleikar eru hjá þeim sem þegar stóðu höllum fæti. Búast má við að afleiðingar þessa ástands sjáist ekki strax en muni gæta lengi. Enn hefur ekki orðið vart við aukningu á umsóknum um fjárhagsaðstoð.

Þjónusta við skjólstæðinga heimaþjónustu hefur gengið vel. Dregið hefur verið úr þrifum hjá hraustasta fólkinu en hringt er í það í staðinn. Um 20 heimili hafa afþakkað þjónustu. Ekki mörg heimili farið í sóttkví. Unnið er hringingum til allra einstaklinga 80 ára og eldri og hringt er í þá með aðstoð starfsmanna íþróttamannvirkja.

Heimilið Birkimörk:
Starfsemi er óbreytt frá því síðast. Gengur vel.

Umhverfisdeild og veitur:
Staðan er óbreytt frá því síðast. Gámasvæði er ennþá opið með óbreyttum hætti. Starfsmenn frá íþróttamannvirkjum hafa komið deildinni til aðstoðar og reynst afar vel.

Bygginga, skipulags- og tæknideild:
Starfsemi er óbreytt frá því síðast og starfsmenn sinna sínum störfum að mestu heima við.

Almennt:
Smitum hefur ekki fjölgað hér í Hveragerði. Samkvæmt tölum í dag 22. apríl, er 1 einstaklingar í Hveragerði í einangrun en 2 í sóttkví. Hafa þessar tölur verið stöðugar síðustu daga. Á starfssvæði Lögreglustjórans á Suðurlandi eru 27 í einangrun og 141 í sóttkví.

Sumardagurinn fyrsti:
Hefðbundin hátíðahöld vegna Sumardagsins fyrsta falla niður í ár. Þess í stað verður boðið upp á Bílabíó á planinu við Hótel Örk, tvær sýningar verða. Einnig verður vetur kvaddur með tónleikum í í streymi á síðasta vetrardag. Umræður um frekari nýbreytni í hátíðahöldum sumarsins bíða síðari tíma.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Síðast breytt: 29.04.2020