Sundlaugin Laugaskarði
Sundlaugin Laugaskarði er 50 metra löng og 12 metra breið og var um langa hríð langstærsta sundlaug landsins. Hún er svokölluð gegnumrennslislaug, hituð upp með jarðgufu, sem tryggir eðlilegt sýrustig og hreinleika vatnsins. Laugin er í skjólsælli hvilft sem veit gegn suðri, norðan Varmár. Á sundlaugarsvæðinu er heit, grunn setlaug, kaldur pottur, heitur pottur með vatnsnuddi og náttúrulegt gufubað. Í sundlaugarhúsinu er líkamsræktarsalur sem er rekinn af íþróttafélaginu Hamri.
Austan við laugina eru tveir strandblaksvellir.
Hveragerðisbær annast allan rekstur og viðhald laugarinnar.
Söguágrip
Laugin var byggð í tveimur áföngum, sá fyrri var 25x12 metrar og var tekinn í notkun árið 1938, en síðari hlutinn árið 1945. Í henni æfði íslenska landsliðið í sundi allt til 1966.
Það var Ungmennafélag Ölfushrepps sem beitti sér fyrir byggingu laugarinnar og lögðu félagsmenn fram ómælda sjálfboðavinnu. Þeim bættist góður liðsauki þegar Lárus Rist sundkappi fluttist til Hveragerðis árið 1936 og má segja að hann hafi tekið forystu við uppbyggingu laugarinnar og réði meðal annars staðarvali.
Á haustdögum 1963 var brotið blað í sögu laugarinnar en þá var eldri byggingin í Laugaskarði rifin niður og nýtt veglegt steinhús reis af grunni sínum. Arkitektinn af húsinu er Gísli Halldórsson. Sundlaugarhúsið þykir mjög glæsilegt og hefur vakið athygli fyrir fallega hönnun sem fellur vel inn í landslagið.
Forstöðumenn í Laugaskarði:
Lárus J. Rist 1938 – 1946
Hjörtur S. Jóhannsson 1946 – 1985
Þorsteinn Hjartarson 1985 – 1987
Sigurður Þorsteinsson 1987 – 2006
Arnfríður Þráinsdóttir 2006 – 2011
Jóhanna M. Hjartardóttir 2011 - 2022
Ólöf Jónsdóttir 2022 -