Deiliskipulag
Leiðbeiningar um leit deiliskipulaga inni á skipulagsvefsjá.
Samþykkt deiliskipulög er að finna inni á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Þysjað er inn á það svæði sem leitað er að á kortinu. Gul svæði á kortinu hafa verið deiliskipulögð, ómerkt svæði hafa ekki verið skipulögð.
Þegar deiliskipulagt svæði hefur verið valið koma upp hlekkir inn á skipulagsuppdráttinn og greinargerð (þar sem við á) á upprunalega deiliskipulaginu (mynd 1). Dagsetning á samþykki skipulagsins er að finna í vinstri dálkinum. Ef skipulagið hefur verið uppfært kemur listi yfir breytingar fyrir neðan upprunalega skipulagið og efsta línan í breytta listanum er nýjasta útgáfa skipulagsins (mynd 2).
Mynd 1:
Mynd 2:
Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa.
Allar byggingarframkvæmdir á svæðum þar sem deiliskipulag liggur fyrir skulu vera í fullu samræmi við ákvæði viðkomandi deiliskipulags.
Telji bæjarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi þá skal málsmeðferð vera eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Telji bæjarstjórn að gera þurfi óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.
Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur bæjarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.
Grenndarkynning bæði á óverulegri breytingu á deiliskipulagi og á byggingarframkvæmd, þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir, felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur.
Nýlega samþykktar deiliskipulagsáætlanir:
Þjónustu- og tjaldsvæði við Árhólma í Öflusdal
Kambaland
Edenreitur
Austurmörk, Sunnumörk, Mánamörk
Hlíðarhagi
Heiðarbrún 32-100
Laufskógar 32 - 40
Bröttuhlíð - Klettahlíð
Hreinsstöð
Hraunbæjarland
Skipulagsfulltrúi er Hildur Gunnarsdóttir.
Netfang: hildur@hveragerdi.is