Fara í efni

Vatnsveita Hveragerðis

Saga vatnsveitu í Hveragerði hefst árið 1929 með lagningu aðveituæðar frá vatnslindum í landi Reykja að mjólkurbúi Ölfusinga sem þá var að hefja sinn rekstur. Bygging mjólkurbúsins árið 1929 markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Þann 4. júní 1944 var Vatnsveitufélag Hveragerðis formlega stofnað og 25. október sama ár yfirtók félagið eignir tveggja vatnsveitna, þ.e.a.s. vatnsveitu Ásahverfis og vatnsveitu Gróðurhúsahverfis, sem fyrir voru í þorpinu. Á miðju ári 1947 var vatnsveitufélagið lagt niður og eignir þess og skuldbindingar lagðar til Hveragerðishrepps.

Vatnsból Hvergerðinga.

1. Lindir í landi Reykja.
Fyrstu ár byggðar í Hveragerði var vatn nær eingöngu sótt í vatnsból í landi Reykja skammt austan við Laugaskarð eða þar til Gufudalslindir voru virkjaðar. Vatnstöku úr þessum lindum var hætt um miðjan níunda áratuginn þegar Sundlaugin Laugaskarði var tengd við núverandi veitukeri bæjarins.

2. Gufudalslindir.
Á fimmta áratug aldarinnar fór að bera á miklum vatnsskorti í bænum samhliða ört vaxandi byggð og var því ráðist í virkjun Gufudalslinda. Lindirnar, sem eru undir Reykjafjalli sunnan Gufudals, eru í takmarkaðri notkun en geta gefið allt að 10 l/sek af 8,4°C heitu vatni. Vatnsbólið hefur verið aflagt.

3. Friðarstaðalindir.
Fljótlega eftir virkjun Gufudalslinda var ráðist í virkjun linda við Friðarstaði. Vatnið rennur undan hraunbrún við Varmá. Þar er vatninu safnað í þró og rennur vatnið úr henni að dæluskúr sem stendur neðan við þróna. Lindirnar geta gefið frá um 10 l/sek upp í 20 l/sek (fer eftir grunnvatnsstöðu). Hitastig vatnsins er 8,7°C. Mikil umferð bæði manna og dýra er um hraunið vestan við vatnsbólið og því veruleg hætta á mengun vegna umferðarinnar. Vatnsbólið er í dag varavatnsból bæjarins og því í fullu viðhaldi. Tvær samsíðatengdar 11kW Grundfos LP 80-200 dælur eru í dæluskúrnum. Vatnsbólið er nýtt sem varavatnsból.

4. Ölfusborgarlindir.
Ölfusborgarlindir, sem eru undir Reykjafjalli rétt vestan Ölfusborga voru virkjaðar árið 1979. Vatnið kemur úr skriðu í fjallshlíðinni og er safnþró við skriðufótinn. Úr þrónni rann vatnið að dæluskúr sem stendur neðan við Sundlaugina Laugaskarði. Vatnsbólið gaf um 13 l/sek af 6,0°C heitu vatni. Vatnsbólið hefur verið aflagt.

Grunnvatnsrannsóknir:
Undanfarin 20 ár hefur verið leitað að nýjum vatnsbólum fyrir Hvergerðinga, því bæði Gufudals- og Friðarstaðalindir fullnægja ekki nútímakröfum um vatnsból. Lengi hefur verið vitað um mikið grunnvatnsstreymi í hrauninu beggja vegna Hamars. Að frumkvæði samvinnunefndar um svæðisskipulag Ölfushrepps, Hveragerðis- og Selfossbæja árið 1989, hófust umfangsmiklar grunnvatnsrannsóknir við Hveragerði. Samvinnunefndin gerði samning við Orkustofnun um ráðgjöf og rannsóknir og við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um boranir á rannsóknarholum í Bæjarþorpsheiði suðvestan við bæinn. Helstu ráðgjafar voru þeir Freysteinn Sigurðsson, Þórólfur Hafstað og Sverrir Þórhallsson, Orkustofnun. Samhliða endurskoðun aðalskipulags Hveragerðis árið 1992 var rannsóknunum haldið áfram á vegum Hveragerðisbæjar og þá boraðar 2 rannsóknarborholur á Selhæðum, undir Kömbum, norðan Hamars. Niðurstöður þeirra borana leiddu í ljós að þar var nægjanlegt vatnsmagn til þess að fullnægja vatnsþörf bæjarins næstu áratugina eða allt að 100l/sek. Árið 1993 voru síðan boraðar tvær rannsóknarborholur undir Kömbum, sunnan Hamars til þess að staðsetja nákvæmlega megin vatnsstrauminn í Kambahrauninu.

Vatnsból á Selhæðum norðan Hamars.

Borhola 1:
Veturinn 1992-1993 var að boruð 30 metra djúp vinnsluhola á Selhæðum, sem gefur u.þ.b. 25 l/sek af 6,0°C heitu vatni. Grunnvatnsborð í holunni er í um 16-17 metrum undir jarðvegsyfirborði. Borholan var boruð og fóðruð af Borverki hf, borstjóri var Jökull Ólafsson. Yst er 14" stál yfirborðsfóðring, 3 metra löng. Síðan 10" plast-vinnslufóðring fyrir dælu. Fóðringin nær niður á botn holunnar og er raufuð neðstu 12 metrana. Innan í vinnslufóðringunni er 21 metra langt, 6" plaströr frá dælu. Utan á það rör, með rafstreng, er fest 1/4" mælirör til vatnsborðsmælingar. 22 kW Grundfos dæla er á 21 metra dýpi. Hún var gangsett í fyrsta skipti 25. nóvember 1994 og formlega tekin í notkun 1. desember 1994.

Borhola 2:
Ný vinnsluhola var boruð á árinu 2001 og tekin í notkun það sama ár. Holan er að öllu leyti eins og Borhola 1 og gefur álíka mikið vatnsmagn eða um 25 l/sek. Holan var boruð og fóðruð af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða ehf.

Borhola 3:
Ný vinnsluhola var boruð á árinu 2007 og tekin í notkun árið 2008. Holan er að öllu leyti eins og hola Borhola 1 og gefur álíka mikið vatnsmagn eða um 25 l/sek. Holan var boruð og fóðruð af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða ehf. Lokahús: Ofan á vinnsluholunum eru 6m2 lokahús. Aðveitulögn: 1.200 metra löng 8" aðveitulögn, framleidd af SET hf, Selfossi var lögð frá eldri aðveitulögn að borholunni. Í lagnaskurðinn, með vatnslögninni, var lagður háspennustrengur ásamt jarðskauti. Strengurinn er alls 1.740 metrar og liggur frá borholu að spennistöð í Álfafelli. Einnig var lagður stýrisstrengur í skurðinn, fyrir fjargæslukerfi, Strengurinn er alls 1.750 metrar og liggur frá borholu að miðlunartanki vatnsveitunnar. Meðfram aðveitulögninni að borholu var lagður 1.100 metra langur og 4 metra breiður vegur sem verður framtíðarvegur að vatnsbólinu auk þess sem hann er hluti að reiðvegakerfi bæjarins. Verkið var unnið af Vinnuvélum A Michelsen, Hveragerði.

Miðlunartankur - Dælustöð:
Núverandi miðlunartankur vatnsveitunnar er steinsteyptur og byggður árið 1981 eftir að suða í eldri miðlunartanki gaf sig með þeim afleiðingum að hann gjöreyðilagðist. Tankurinn stendur á Litla Hamri undir austurbrún Hamarsins og rúmar 750 tonn af vatni. Árið 2006 var byggð dælustöð við miðlunartankinn. Byggingarfyrirtækið Eysteinn ehf sá um verkið. 22. kW Grundfos dæla er í stöðinni. Tilgangurinn meðstöðinni er að auka inntaksþrýsting í efstu húsum bæjarins.

Síðast breytt: 11.02.2020