Fara í efni

Alheims hreinsunardagurinn 15. september


Þann 15. september 2018 mun heimurinn sameinast í fyrsta sinn í stærsta hreinsunarátaki sem jörðin hefur orðið vitni að: World Cleanup Day. Með þessu átaki er lögð áhersla á að allir íbúar þessarar jarðar nýti daginn til þess að hreinsa sitt umhverfi, sjá nánar á heimasíðu Landverndar www.landvernd.is/sidur/alheimshreinsun-thann-15-september-2018.

Ísland og ekki síst Hvergerðingar og Sunnlendingar láta sitt ekki eftir liggja og munu að sjálfsögðu taka þátt. Landvernd, Blái herinn, JCI, Plastlaus september, plokkarar og allir sem hafa áhuga á að búa í hreinum heimi, munu sameina krafta sína og hreinsa fjöll af rusli í tengslum við þennan alheimsviðburð.

Alheimshreinsunardagurinn verður haldinn í 150 löndum á laugardag og hvetur Hveragerðisbær íbúa til að „plokka“, eins og það hefur verið kallað, þ.e.a.s. að týna rusl á víðavangi.

Ókeypis er að losa rusla á gámasvæðinu í tilefni dagsins, á morgun, laugardaginn 15. september.

Þetta er tilvalið tækifæri fyrir einstaklinga, vinahópa eða vinnustaði til að bæta sitt nærumhverfi og náttúru.

Plastlaus september

Samhliða Alheimshreinsunardeginum er í gangi verkefnið Plastlaus september, sem er árlegt árverkni átak og því er plast þema þess mánaðar. Átakinu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti. Hver Íslendingur skilur eftir sig um 40 kíló af umbúðarplasti á ári.

Vonumst við til þess að Hvergerðingar verði áberandi hluti af þessum átaksverkefnum með virkri þátttöku enda eitt af markmiðunum að Suðurland verði fremst í flokki landshlutanna þegar kemur að umhverfismálum og hreinu umhverfi.


Síðast breytt: 14. september 2018
Getum við bætt efni síðunnar?