Fréttir
Lóðir lausar til úthlutunar
Vakin er athygli á tveimur glæsilegum lóðum sem nú eru lausar til úthlutunar í Hveragerði. Önnur er einbýlishúsalóð við Þórsmörk en hin fyrir litið fjölbýli á horni Frumskóga og Varmahlíðar. Í báðum tilfellum er hér um góðar lóðir í grónum hverfum að ræða og einstakt tækifæri fyrir áhugasama húsbyggjendur.
Suðurlandsmeistarar í skák
Hópur ungra manna úr Grunnskólanum í Hveragerði urðu Suðurlandsmeistarar í skák nú nýverið. Bæjarstjórn óskar þeim innilega til hamingju með afrekið.
Páskar í Hveragerði
Söguganga á Föstudaginn langa
Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur fer fyrir sögugöngu um Hveragerði og segir frá byggðasögu bæjarins. Lagt verður af stað frá Sundlauginni Laugaskarði kl. 14 en sundlaugin er opin alla páskadagana frá kl. 10 – 17:30.
Fjölbreyttar sýningar
Í Hveragerði er margt markvert að sjá og auðveldlega má eyða drjúgum tíma í að skoða það sem bærinn hefur uppá að bjóða. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í bænum og er til dæmis tilvalið að ganga á milli söguskilta og fá þannig glögga mynd af sérstakri sögu Hveragerðisbæjar. Í Lystigarðinum er sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin. Sýningin dregur upp mynd af tilurð skáldanýlendunnar í Hveragerði upp úr 1940. Listasafn Árnesinga er ávallt með metnaðarfullar sýningar sem gaman er að skoða Nú eru þar sýningar á verkum í eigu safnsins en þar er í forgrunni fjöldi verka sem safnið hefur eignast nýlega eftir Valtý Pétursson. Auk þess sýnir Borghildur Pétursdóttir verk í safninu þar sem athyglinni er beint að Þjórsá en þar veltir hún upp pólitískum spurningum um samband manns og náttúru.
Steinasafnið Ljósbrá er síðan nýtt safn í Hveragerði þar sem sjá má fágætar steintegundir og fræðast um ötula steinasöfnun hjónanna Sigrúnar Stefánsdóttur og Sigurðar Pálssonar og afkomenda þeirra.
Veitingastaðir hafa opið
Vert er að geta þess að flestir veitingastaðir, gróðrarstöðvar og verslanir í Hveragerði erum með með opið alla páskadagana og því er tilvalið að gera sér ferð í blómabæinn og njóta alls þess sem þar er á boðstólum.
Verið velkomin