Vinabæjarheimsókn frá Færeyjum
Hveragerðisbær tók á móti góðum gestum í vikunni þegar bæjarstjórn Nes kommunu í Færeyjum heimsótti okkur ásamt bæjarstjóranum, Súni í Hjøllum , og Elsbu Dánjalsdóttur sendiritara á Sendistovu Færeyja.
Nes kommuna samanstendur af þremur ört vaxandi byggðarlögum Nes, Saltnes og Toftir svo þar er mikil uppbygging í gangi, rétt eins og hér í Hveragerði. Þau voru því mjög áhugasöm um að skoða skólastarfið og uppbygginguna í tengslum við það. Það var auðsótt mál og heimsóknin hófst í Grunnskóla Hveragerðis þar sem Sævar Helgason skólastjóri tók á móti hópnum sem var leiddur af Sigríði Hjálmarsdóttur menningar-, atvinnu- og markaðsstjóra og Hönnu Lovísu Olsen aðalbókara bæjarins en hún er Færeyingur í grunninn sem kom sér afar vel.
Að lokinni góðri heimsókn í Grunnskólann lá leiðin til Gunnvarar leikskólastjóra Óskalands en hún fór yfir fyrirkomulagið á Óskalandi og fræddist einnig um hvernig málum væri háttað í leikskólum Færeyja.
Loks var ferðinni heitið í Bungubrekku þar sem Elfa og Liljar sögðu frá starfsemi frístundar og félagsmiðstöðvar bæjarins. Rafíþróttaaðstaðan vakti sérstaka hrifningu gestanna.
Eftir skólaheimsóknirnar tóku Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri og staðgengill bæjarstjóra og bæjarfulltrúarnir Njörður Sigurðsson og Friðrik Sigurbjörnsson á móti gestunum í kaffi og samtal. Þar var mikið rætt um sameiginlega þætti í málum sveitarfélaga og einnig muninn á fyrirkomulagi sveitarstjórnarmála á Íslandi og í Færeyjum.
Súni borgarstjóri hafði meðferðis vinabæjarsamning sem var gerður árið 2004 milli Toftir og Hveragerðisbæjar. Það var Þorsteinn Hjartarson í Laugaskarði, þáverandi forseti bæjarstjórnar, sem undirritaði samninginn fyrir hönd bæjarins. Því miður duttu samskipti milli sveitarfélaganna uppfyrir 2008 í hruninu. En heimsóknin var góður upptaktur að því að endurvekja það samstarf og mikill áhugi á báða bóga að taka upp virkt vinabæjastarf á ný.
Sigríður leysti svo hópinn út með fallegum kertastjökum sem gerðir voru af henni Hrönn Waltersdóttur, listakonu í Hveragerði.