Fara í efni

Viltu vera með í skemmtilegri uppbyggingu í Hveragerði?

Svæðið sem um er að ræða er fyrir miðri mynd á móts við Hamarshöllina.
Svæðið sem um er að ræða er fyrir miðri mynd á móts við Hamarshöllina.

Nú eru lausar til úthlutunar 6 verslunar- og þjónustulóðir ofan við byggðina í Hveragerði við bakka Varmárgljúfurs.

Umræddar lóðir eru á bilinu 1.800-9.000m2 að flatarmáli og nýtingarhlutfall lóða er að jafnaði 0,5. Byggingar á lóðunum skulu vera 1-2 hæðir. Á lóðunum er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi sem þjónar bæði íbúum Hveragerðisbæjar og ferðamönnum. Vegna nálægðar lóðanna við útivistarsvæði og íbúðabyggð skal öll starfsemi vera hreinleg og ekki valda ónæði og óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar. Byggingar skulu falla vel að umhverfi og efnisval skal vera náttúrulegt.

Fyrirkomulag úthlutunar:
Umsóknum skal skilað til bæjarráðs í samræmi við reglur um úthlutun lóða í Hveragerði. Eftir að hefðbundnum auglýsingatíma er lokið verða þær hugmyndir sem þá hafa borist kynntar fyrir bæjarráði. Í kjölfarið, mun bæjarráð að fengnu ráðgefandi áliti skipulagshöfunda og skipulagsfulltrúa, leggja til við bæjarstjórn hverjir verði fyrir valinu til frekari viðræðna áður en til formlegrar úthlutunar kemur. Við valið verður tekið tillit til gæða umsóknar, raunhæfni tillagna, vænts framkvæmdahraða en einnig þess með hvaða hætti tillögurnar geta aukið fjölbreytni hvað varðar þjónustu og atvinnu í bæjarfélaginu. Skulu tillögur taka tillit til skilmála í deiliskipulagi og forsendna í aðalskipulagi.

Forsendur:
Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir ferða- og heilsutengdri þjónustu á umræddum lóðum í góðum tengslum við skógrækt, íþróttasvæði, golfvöll og aðra starfsemi í dalnum norðan Hamars. Lögð er áhersla á að byggðin falli vel að landi og að hún endurspegli staðaranda svæðisins um græna byggð í náttúrparadís. Lögð er rík áhersla á gott aðgengi að Varmá sem er á náttúrminjaskrá en í deiliskipulagi er gert ráð fyrir göngustígatengingum á árbakkanum frá skipulagssvæðinu og niður í miðbæ Hveragerðis.

Nánari upplýsingar má finna á www.hveragerdi.is. Einnig hjá skipulagsfulltrúa gfb@hveragerdi.is eða bæjarstjóra aldis@hveragerdi.is. Sími 483-4000.

Hér má finna allar upplýsingar um skipulag á umræddum reit. 

Umsóknum skal skilað á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar fyrir kl. 16 mánudaginn 4. október 2021.

Bæjarstjóri

 


Síðast breytt: 10. september 2021
Getum við bætt efni síðunnar?