Fara í efni

Veruleg fjölgun íbúa framundan


Hveragerði er vinsæll bær til búsetu enda njóta íbúar nálægðar við höfuðborgarsvæðið en njóta samt lífsgæða landsbyggðarinnar. Íbúum í Hveragerði hefur fjölgað um 857 frá því árið 2000 eða um 48,8%. Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.627.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur tekið ákvörðun um að mæta hækkuðu fasteignamati og lækka álagningarprósentur fasteignagjalda á íbúðar- og atvinnuhúsnæði (A og C flokk). Álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,40% í 0,36% og lóðarleiga úr 0,9% í 0,75%. Álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,6% í 1,5% og lóðarleiga úr 1,7% í 1,5%. Umtalsverð lækkun á álagningarprósentu mun einnig verða vegna vatnsgjalds og holræsagjalds.

Ljóst er að framboð húsnæðis mun stóraukast strax á næsta ári en framkvæmdir eru hafnar eða við það að hefjast á 156 íbúðum í bæjarfélaginu. Á árinu 2019 munu þær íbúðir byrja að koma inná markaðinn þannig að ljóst er að íbúafjölgun verður veruleg á næstu misserum.

Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2019 er viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði en bæjarfélagið státar af einstaklega góðu skólastarfi bæði í leik- og grunnskóla. Glæsilegur sex deilda leikskóli er nýtekinn til starfa og býðst börnum í bæjarfélaginu leikskólapláss frá 12 mánaða aldri. Á komandi ári verður ráðist í mikla gatnagerð vegna nýrra hverfa en framkvæmdir munu hefjast á vormánuðum í Kambalandi og þar verður þá fljótlega hægt að úthluta fjölda lóða fyrir einbýlis-, rað- og fjölbýlishús.

Unnið er að uppbyggingu nýs iðnaðarhverfis neðan Suðurlandsvegar og þar munu á næsta ári rísa mörg iðnaðarhús þar sem skapast munu ný atvinnutækifæri. Á næsta ári munu enn fleiri lóðir standa þar áhugasömum til boða.

Bæjarstjórn stendur einhuga að gerð fjárhagsáætlunar eins og undanfarin ár en ljóst er að breytingar munu verða á bæjarfélaginu þegar fjöldi nýrra íbúa mun bætast í hóp Hvergerðinga á næstu misserum. Þær áskoranir eru ánægjulegar en íbúar hafa ítrekað skipað bæjarfélaginu í hóp þeirra bestu þegar spurt hefur verið um ánægju íbúa. Það er besta sönnun þess að vel hafi tekist til við rekstur bæjarfélagsins.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar


Síðast breytt: 17. desember 2018
Getum við bætt efni síðunnar?