Fara í efni

Verahvergi og Rósakaffi hlutu Umhverfisverðlaunin 2024

Sólin skein og hátíðlegur blær var í lofti þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar 2024 í gær, á sumardaginn fyrsta í Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Forsetinn naut liðsinnis hins nýráðna bæjarstjóra Hveragerðisbæjar, Péturs Markan, við afhendinguna. 

Umhverfisnefnd bæjarins horfði að þessu sinni til hringrásarhagkerfisins við valið og hlutu því tvö fyrirtæki Umhverfisverðlaunin fyrir framlag sitt og frumkvöðlastarfs í þágu þess. Verðlaunahafar ársins eru Rósakaffi og Verahvergi og óskar Hveragerðisbær eigendum og öðrum aðstandendum innilega til hamingju með árangurinn. Hér á eftir er rökstuðningur nefndarinnar með valinu:

VERAHVERGI

Stella Christensen og Janus Bjarnason settu á laggirnar básaleiguna Verahvergi að Austurmörk 1 í Hveragerði fyrir notaðan fatnað og fylgihluti á síðasta ári. Þau unnu sjálf að því innrétta verslunarrýmið með útsjónarsemi og endurnýtingu að leiðarljósi. Þannig er einn veggur klæddur bárujárni sem fannst á túni Kotstrandakirkju. Loftljósin, sem voru búin að stimpla sig út úr vinnu hjá RÚV í Efstaleiti, fundu sömuleiðis endurnýjaðan tilgang í básaleigunni Verahvergi.

Verahvergi var opnuð þann 12. maí, fyrir tæpu ári, og hefur dregið að sér viðskiptavini frá nærsveitarfélögunum auk höfuðborgarsvæðisins og að sjálfsögðu líka íbúa Hveragerðisbæjar.

Verahvergi er mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu til þess að stuðla að endurnýtingu og sporna við hraðtísku og vill skipulags- og umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar veita þeim Stellu og Janusi viðurkenninguna Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar 2024 fyrir eftirtektarvert frumkvöðlastarf fatanýtingar í þágu hringrásarhagkerfisins.

 

RÓSAKAFFI

Veitinga- og kaffihúsið Rósakaffi þekkja margir enda staðsett á aðalgötu bæjarins við Breiðumörk 3. Þar reka hjónin Guðmundur Nielsen og Jóna Sigríður Gunnarsdóttir veitingasölu og blómaverslunina Hverablóm við einstaklega skemmtilegar aðstæður í gróðurhúsum, en fátt minnir meira á Hveragerði en gróðurhús og blómaskrúð.

Veitingahúsið býður upp á hádegishlaðborð, kaffihlaðborð og aðra veitingaþjónustu. Óhjákvæmilega fylgir rekstri eins og þessum hætta á matarsóun með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á umhverfið. Snemmsumars árið 2023 prufuðu því Guðmundur og Jóna að útbúa matarpakka úr því sem hafði gengið af þann daginn og létu vita á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar létu ekki á sér standa og varð þetta að föstum lið hjá þeim og fleiri rekstraraðilar bættust í hópinn. Þess má geta að í fyrstu matarpökkunum voru kjötfarsbollur með meðlæti!

Ljóst var að fyrirkomulagið var komið til að vera og var leitað til Steinunnar Þorfinnsdóttur formanns Rauða krossdeildar Hveragerðis til þess að koma upp varanlegri aðstöðu fyrir matargjafir sem annars færu til spillis. Varð úr að staður var fundinn við Verahvergi í Austurmörk hjá þeim Janusi og Stellu þar sem hægt var að koma upp kæliskápum.

Verkefni Guðmundar og Jónu til þess að minnka matarsóun er til mikillar fyrirmyndar og sannarlega í anda hringrásarhagkerfisins, þar sem leitast er við að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Það eru börn þeirra Guðmundar og Jónu sem taka við verðlaununum fyrir hönd foreldra sinna enda eru þau upptekinn við að standa vaktina í Rósakaffi. Það eru þau Margrét Ólafía Nielsen og Gunnar Smári Nielsen.

 

 


Síðast breytt: 26. apríl 2024
Getum við bætt efni síðunnar?