Upplýsingamiðstöðin opnuð að Breiðumörk 21
Upplýsingamiðstöð Hveragerðis mun verða opnuð að Breiðumörk 21 á næstu dögum. Þar verður hún tímabundið staðsett meðan uppbygging í Hveragarðinum stendur yfir en áætlað er að þar verði Upplýsingamiðstöðin, Upplýsingamiðstöð Hveragerðis, til frambúðar.
Upplýsingamiðstöð Suðurlands var lokað í þeirri mynd sem hún hefur verið rekin síðustu 20 ár í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk og var síðasti opnunardagur föstudagurinn 29. desember 2023.
Upplýsingamiðstöð Suðurlands var frá upphafi rekin á styrkjum frá Ferðamálastofu og SASS en þeir styrkir voru lagðir af og var Upplýsingamiðstöðin í Hveragerði þá ekki lengur landshlutamiðstöð. Pósthúsið í Hveragerði var rekið í samstarfi við Upplýsingamiðstöðina en Íslandspóstur sagði upp samningnum við Upplýsingamiðstöðina vorið 2023. Þar með voru forsendur fyrir rekstrinum brostnar í þeirri mynd sem verið hefur og einsýnt að breytinga væri þörf.
Samtal var því tekið upp við Reiti, eigendur húsnæðisins í Sunnumörk, og tóku þeir vel í beiðni Hveragerðisbæjar um uppsögn á leigusamningi fyrir Upplýsingamiðstöðina þrátt fyrir að hann væri í raun óuppsegjanlegur til ársins 2029. Samningaviðræður við Reiti báru þann árangur að uppsögn á samningnum var samþykkt fimm árum fyrr en áætlað var og sparast með því um 35 m.kr. Hveragerðisbær kann Reitum bestu þakkir fyrir liðlegheitin.
Fyrirhugað er að gera breytingar og ráðast í uppbyggingu í Hveragarðinum, hjarta Hveragerðis, á árinu 2024. Upplýsingamiðstöð Hveragerðis mun þá sameinast Hveragarðinum og verða þar til frambúðar.