Fara í efni

Umhverfisverðlaunin til nemenda 7. bekkjar


Nemendur í 7. bekk Grunnskólans í Hveragerði hlutu umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjarbæjar árið 2018. Það var Sigurður Ingi Jóhannesson, innanríkis og samgönguráðherra, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Landbúnaðarháskólanum að Reykjum á sumardaginn fyrsta. .

Í fjölda ára hafa nemendur 7. bekkja grunnskólans tekið að sér að hreinsa rusl úr bænum í fyrstu viku hvers mánaðar meðan skólinn starfar. Gerður er formlegur verksamningur við nemendur, undirritaður af fulltrúa þeirra og bæjarstjóra. Tekið er fram í samningnum hvernig ruslahreinsunin fari fram og greiðir bærinn í söfnunarsjóð nemenda sem þau hafa ráðstafað til ferðalaga í lok vetrar.

Talið er að fljótlega uppúr 1990 hafi nemendur 7 bekkja hér í Hveragerði fyrst gert samning við Hveragerðisbæ um ruslahreinsun í bænum sem endurnýjaður hefur verið árlega á þeim tæplega 30 árum sem liðin eru. Þannig hafa ungmenni í Hveragerði á hverju ári haldið bænum snyrtilegum með því að safna tugum kílóa af rusli vítt og breitt um bæinn í hverjum mánuði. Það væri síðan fróðlegt að taka saman magn þess rusls sem safnast hefur á þessum 30 árum en ætli megi ekki leiða að því líkum að þar sé um að ræða fjölmörg tonn sem annars hefðu fokið hér um götur bæjarins eða legið í beðum eða á trjágreinum.
Oft hefur veður verið með versta móti en sjaldan hefur þurft að fresta tínslunni og þá eingöngu vegna mikilla snjóa eins og bæjarbúar og aðrir urðu varir við í vetur.

Þessi hefð ungmenna hér í Hveragerði er einstök og gerir það að verkum að mun snyrtilegra er um að litast í bænum en annars yrði. Öll ungmenni bæjarins taka þátt í þessu verkefni og læra þannig frá fyrstu hendi að sé rusli fleygt á víðavang þarf einhver annar að taka það upp. Það er góður lærdómur.

Þó að þessi verðlaun falli nemendum í 7. bekk skólaárið 2017 – 2018 í skaut að þessu sinni er litið svo á að verðlaunin sé til allra þeirra fjölmörgu sjöundu bekkinga sem á undan hafa komið og staðið sig með prýði en einnig að þau virki sem hvatning til komandi sjöundu bekkinga sem vonandi munu halda þessari frábæru en jafnframt ákaflega nytsömu hefð á lofti.

Það var Sigurður Ingi Jóhannesson, innanríkis- og samgönguráðherra, sem afhenti verðlaunin með góðri aðstoð Eyþórs H. Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar.


Síðast breytt: 20. apríl 2018
Getum við bætt efni síðunnar?