Fara í efni

Tilkynning vegna fuglaflensu í Ölfusi.

Hveragerðisbær, í samstarfi við Matvælastofnun vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

Skæð fuglainflúensa hefur greinst í kalkúnum á Auðsholti í Ölfusi og er þetta í fyrsta skipti sem hún greinist hér á landi á alifuglabúi. Aðgerðir hafa gengið vel en smithætta fyrir fugla er mikil, sér í lagi innan verndarsvæðis (10 km radíus frá búinu). Að því tilefni er vakin athygli á eftirfarandi.

Fuglaeigendur:

  • Matvælastofnun mælist til þess að allir fuglaeigendur gæti ýtrustu sóttvarna. Meðal mikilvægustu aðgerða til að koma í veg fyrir að fuglarnir smitist er að alifuglar og aðrir fuglar í haldi fólks, séu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum. Einnig er mikilvægt að forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla.
  • Fuglaeigendur þurfa því að vera stöðugt vakandi fyrir einkennum og tilkynna dýralækni sínum eða Matvælastofnun án tafar um minnsta grun. Hringja má í sérgreinadýralækni alifugla í síma 8617419.
  • Bann er við flutningi af verndarsvæðinu (10 km radíus frá smituðu búi) á fuglum og öllu sem getur borið smit frá stöðum sem hýsa fugla, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar. Sjá verndarsvæði nánar á mynd eða á kortasjá Matvælastofnunar (velja Sjúkdómar > Fuglainflúensa). Þær takmarkanir sem lagðar hafa verið á munu gilda að öllu óbreyttu til 28. desember en tíminn framlengist ef fleiri tilfelli koma upp.
  • Minnt er á að fuglainflúensa getur mögulega smitað fólk sem er í náinni snertingu við veika fugla. Það skal þó tekið fram að ekki er vitað um smit í fólki með þessari tegund veirunnar.

Almenningur:

  • Almenningur er sem fyrr beðinn um að tilkynna um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum í gegn um ábendingarkerfi Matvælastofnunar. Æskilegt er að fá myndir og upplýsingar um fuglategund, fjölda fugla og fundarstað með hnitum.
    • Hræ skal látið liggja nema ef það er þannig staðsett að nauðsynlegt sé að fjarlægja það. Ef það er gert skal hræið sett í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum, lokað fyrir pokann og bíða fyrirmæla Matvælastofnunar.
    • Finnist veikur fugl í neyð skal gæta þess að koma ekki mjög nálægt eða handleika fuglinn nema með góðum einstaklings sóttvörnum (einnota hanska og veiruhelda grímu) og tilkynna strax um hann til viðkomandi sveitarfélags.
  • Engin hætta stafar af neyslu afurða og því ekki þörf á innköllun á kalkúnakjöti sem er á markaði.
  • Litlar líkur eru smiti í gæludýrum frá villtum fuglum en forðast skal eftir fremsta megni snertingu þeirra við dauða eða veika fugla.

Nánari upplýsingar eru í frétt þann 6. desember og á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um fuglainflúensu.

1 km, 3 km og 10 km radíus frá smituðu búi.

Flutningsbann og sérstök varúð gildir fyrir alla þá sem eru í 10 km radíus frá búinu.


Síðast breytt: 9. desember 2024
Getum við bætt efni síðunnar?