Fara í efni

Þjónustusamningur við Félag eldri borgara undirritaður

Hveragerðisbær og Félag eldri borgara í Hveragerði (FebHver) undirrituð á dögunum þjónustusamning til næstu fimm ára.

Skyldur FebHver samkvæmt samningnum er að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í hvívetna meðal annars með því að reka félags- og tómstundaaðstöðu fyrir eldri borgara í Hveragerði, hlúa að hvers konar áhugamálum þeirra með skipulagningu hópavinnu, tómstundavinnu, skemmtana og þess háttar auk þess að stuðla að heilsurækt og útivist fyrir félagsmenn.

Hveragerðisbær skuldbindur sig til að standa straum af árlegum gjöldum s.s. fasteignagjöldum, greiðslum í hússjóð vegna húseignar félagsins auk árlegs framlags vegna breytilegs viðhaldskostnaðar hennar.

Þá greiðir Hveragerðisbær sértækar greiðslur næstu fimm árin vegna endurnýjunar á loftræstikerfi húsnæðis FebHver.

Auk þessa er í samningnum gert ráð fyrir árlegu framlagi frá Hveragerðisbæ vegna starfsmanns í 50% starfshlutfalli sarfsmanns sem verður með fasta viðveru á skrifstofu félagsins.

Loks er um að ræða fjárframlag frá Hveragerðisbæ til að styðja við félagsstarf eldri borgara í bænum.

Pétur Markan bæjarstjóri undirritaði samninginn fyrir hönd Hveragerðisbæjar en Daði Viktor Ingimarsson, varaformaður FebHver fyrir hönd félagsins. Honum til fulltingis voru við undirritunina þáverandi formaður félagsins, Sigurlín Sveinbjarnardóttir, og gjaldkerinn Kristinn G. Kristjánsson.

Undirritun FebHver og Hveragerðisbæjar


Síðast breytt: 24. febrúar 2025
Getum við bætt efni síðunnar?