Þjónusta talmeinafræðinga tvöfaldast
Börnum í Hveragerði hefur verið tryggð enn betri þjónusta talmeinafræðinga með ákvörðun bæjarstjórnar frá því í mars en þá var samþykkt að ráðnir yrðu tveir talmeinafræðingar í hálft stöðugildi hvor, annars vegar til leikskólanna og hins vegar til grunnskólans. Jafnframt var samþykkt að þeim yrði báðum heimilt að nýta aðstöðu í skólunum til að þjónusta börn samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar. Með þessu móti bætist í raun við heilt stöðugildi talmeinafræðings í þjónustu við börn bæjarins án þess að til komi auka fjárhagslegt framlag frá bæjarfélaginu og börn og foreldar þeirra fá miklu betri þjónustu en áður þar sem ekki þarf lengur að sækja þjónustu sem greidd er af Sjúkratryggingum utan bæjarfélagsins.
Eftirfarandi er góð tilvitnung í vefsíðu um lestur og málþroska:
Börn með sértækar málþroskaraskanir eru í áhættuhópi hvað varðar námsörðugleika og vanlíðan í skóla. Þau eiga oft í erfiðleikum með að eignast vini vegna þess að málþroskaröskun getur haft mikil áhrif á félagsfærni. Það er því mjög mikilvægt að greina börn með máþroskaraskanir sem allra fyrst, skilgreina málörvun út frá þörfum hvers barns og raða þeim í hópa eftir eðli málþroskafrávika. Á þann hátt má leitast við að fyrirbyggja frekari vanda og draga þar með úr hættu á námsörðugleikum, vanlíðan og brottfalli nemenda úr skóla.
Í ljósi mikilvægis þessa vill Hveragerðisbær veita góða þjónustu á þessu sviði. Talmeinafræðingur hefur að undanförnu starfað við skólastofnanir bæjarins og hefur hann unnið að greiningu og þjálfun á mál- og talmeinum; málþroskaröskun, framburðar- og hljóðkerfisröskunum. Hefur ráðgjöf til foreldra, barna og kennara verið mikilvægur hluti af starfi talmeinafræðings. Hefur þessi þjónusta mælst afar vel fyrir og því er það afar ánæjgulegt að nú skuli vera hægt að bæta þessa mikilvægu þjónustu enn frekar.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri