Fara í efni

Það er einfalt að flokka lífrænt

Ef þú getur borðað það en vilt það ekki þá á það heima í lífræna úrgangnum. Það er einfalt að flokka lífrænt heima í eldhúsi. Körfur fyrir lífræna úrganginn fást á bæjarskrifstofu.

Eftirfarandi er frá Umhverfis Suðurland verkefninu !

Við Sunnlendingar höfum nú náð þeim merka áfanga að öll sveitarfélögin 15 í landshlutanum bjóða íbúum sínum upp á flokkun lífræns úrgangs frá öðru sorpi. Nú er því kjörið tækifæri fyrir Sunnlendinga alla að taka úrgangsmál heimilisins föstum tökum.

Lífræn flokkun er ekki flókin því flest vitum við hvað er lífrænt og hvað brotnar niður í náttúrunni, svo sem afgangs matvæli, afskurður af grænmeti og visnuð blóm. Gott er að byrja að flokka það sem við erum örugg með og afla sér þekkingar um vafamál þegar þau koma upp.

Flokkum lífrænt

Af hverju að flokka lífrænt?

Á sorphaugum rotnar lífrænn úrgangur við súrefnissnauðar aðstæður og myndast þá einnig metangas (CH4) sem talið er vera allt að fjórfalt skaðlegri gróðurhúsalofttegund en CO2.

Á jarðgerðarstöðum brjóta hitakærar örverur lífræna úrganginn niður við nægt súrefni á meðan og myndast þá meðal annars vatn, koltvísýringur (C02) og molta.

Molta er jarðvegur úr lífrænum úrgangi sem samanstendur af (meira eða minna rotnuðum) lífrænum efnum og steinefnum, eins og þekkist í skógarjarðvegi. Við niðurbrot lífræna úrgangsins fer hitinn yfir 70°C í jarðgerðarstöðum sem gerir það að verkum að skaðlegar bakteríur sem kunna að vera í úrganginum drepast.

Molta er afbragðs góður jarðvegsbætir sem gerir jarðveginn frjósamari og léttari og um leið heilbrigðari. Á þann hátt er flokkun lífræns úrgangs hluti af hringrásarhagkerfinu því úrgangi er breytt í auðlind sem bæta ræktunarskilyrði matvæla og plantna.

Heimamoltugerð

Jarðgerð getur farið fram við heimahús í moltukassa eða jarðgerðartunnu sem smíða má úr timbri en fæst einnig keypt. Flestir þeir sem stunda heimajarðgerð þykir það fróðlegt en margt má læra af ferlinu, þegar vel er að staðið getur heimajarðgerð farið vandræðalaust fram.


Síðast breytt: 9. október 2019
Getum við bætt efni síðunnar?