Syndum saman í kringum Ísland
Syndum - er landsátak í sundi á vegum Íþrótta- og Ólympísusambands Íslands (ÍSÍ) og Sundsambands Íslands (SSÍ), sem stendur yfir dagana 1.-30. nóvember 2023.
Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem er öllum landsmönnum opið og er markmiðið að hvetja almenning til að hreyfa sig oftar og meira í daglegu lífi. Sundið er kjörin leið til að hreyfa sig enda hentar hún öllum, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og styrkir líkamann og lundina.
Sundlaugin í Laugaskarði tekur að sjálfsögðu þátt í átakinu og hvetur Hvergerðinga og landsmenn alla til að skrá synta metra inn á vefsíðuna www.syndum.is og fara þar í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notandanafn og lykilorð og skrá synta metra. Þeir sem eiga notandanafn úr Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. Þeir sem skrá sig og taka þátt eiga möguleika á að verða dregnir út og vinna veglega vinninga. Á vefnum verður líka hægt að fylgjast með framgangi átaksins og hversu marga hringi í kringum Ísland þátttakendur synda.
Fyrir þá sem vilja síður skrá sig í tölvu verður skráningarblað í afgreiðslu sundlaugarinnar.
Í átakinu á síðasta ári syntu landsmenn samtals 10,2 hringi í kringum landið. Samanlagt syntu þátttakendur í Laugaskarði 126.250 metra í átakinu í fyrra og gaman væri að sjá enn fleiri metra að þessu sinni.
Bæjarráð Hveragerðisbæjar fagnar þessu átaki og hvetur bæjarbúa til þátttöku.