Fara í efni

Sundlaugin Laugaskarði - Fjöldi gesta í sumar og endurbætur í haust

Fjöldi gesta hafa heimsótt Sundlaugina Laugaskarði í sumar og var met aðsókn í júlí eða um 8500 gestir. Það var ánægjulegt þegar heilbrigðisyfirvöld leyfðu opnun sundlauga í maí því það er endurnærandi fyrir líkama og sál að synda og fara í heit böð. Vel hefur gengið að sinna sóttvörnum og virða flestir sundlaugargestir fjarlægðartakmarkanir.

Undanfarin ár hafa verið viðhaldsframkvæmdir á sundlaugarhúsinu sem er komið til ára sinna en það var byggt árið 1963 eftir teikningu Gísla Halldórssonar arkitekts. Í haust verður farið í framkvæmdir á 1. hæð sundlaugarhússins. Endurbæturnar fela í sér stækkun og endurnýjun á búningsklefum og bætast við tveir fjölnota búningsklefar og sjúkraherbergi í vestari hluta hússins. Uppsetning á loftræstikerfi verður kláruð en hún mun þjóna öllu húsinu. Hönnuðir eru frá Verkís og Arkibúllunni ehf. Þess má geta að Margét Leifsdóttir arkitekt hjá Arkibúllan ehf. er barnabarn Gísla Halldórssonar sem teiknaði húsið og hefur verið horft til upprunans í hönnun og litasamsetningum.

Það er mikið rask á sundlaugarsvæðinu á meðan framkvæmdum stendur og verður sundlaugin lokuð frá 1. október á framkvæmdatíma sem er áætlaður til 1. apríl 2021. Það er horft til þess að hafa líkamsræktina, Laugasport, opna en ljóst er að starfsemin verður skert og mun sturtuaðstaða verða opin fyrir gesti í íþróttahúsum bæjarins þegar verður lokað fyrir vatnið.

Jóhanna M. Hjartardóttir


Síðast breytt: 28. ágúst 2020
Getum við bætt efni síðunnar?