Stórsókn í uppbyggingu leiksvæða í Hveragerði
Ákveðið var á fundi bæjarstjórnar að blása til sóknar í leiksvæðum bæjarins og var bæjarstjóra falið að vinna ýmist að hönnun, uppbyggingu eða úrbótum á samtals sex svæðum. Er þetta gert vegna áherslu á fjölskylduvænt samfélag í Hveragerðisbæ. Svæðin og verkefnin sem um ræðir eru eftirfarandi:
1. Vinna nánar og leggja fyrir bæjarráð í byrjun júlí tillögu að nýtingu á opnu svæði milli Varmahlíðar, Dynskóga og Laufskóga. Óskað er eftir því nánar að útfærðar verði tillögur að leiktækjum eða öðrum búnaði sem ýtir undir nýtingu á reitnum með tilliti til samveru fjölskyldunnar og leiksvæðis sem henta á svæðinu í ljósi, aðgengis, skipulags og samtals við íbúa. (Leynilundur)
2. Koma í farveg vinnu við frumhönnun á leiksvæði fyrir börn að Heiðmörk 66, sem á skipulagi er ætluð undir leiksvæði.
3. Vinna tillögu að leiktækjum fyrir börn á skipulögðu opnu svæði í vesturenda Dalahrauns og leggja fyrir bæjarráð í byrjun júlí.
4. Vinna samantekt kostnaðar við kaup á fótboltamörkum fyrir túnið við Heiðarbrún (þríhyrninginn) og leggja fyrir bæjarráð í byrjun júlí.
5. Vinna samantekt á núverandi leiksvæðum og ástandi leiktækja og úrbótum eftir atvikum og kynna fyrir bæjarráði í júlí.
6. Að útbúið verði nýtt leiksvæði í Kambalandi með leiktækjum fyrir börn. Lagt er til að leiksvæðið verði byggt upp í Kambalandi í samræmi við gildandi deiliskipulag.