Stöndum saman, þetta líður hjá !
Kæru vinir !
Við erum að upplifa afar sérkennilega tíma og aðstæður sem ekkert okkar gat mögulega séð fyrir. Á hverjum degi kemur upp ný staða og glíma þarf við verkefni sem engan gat órað fyrir. Stjórnendur hjá Hveragerðisbæ hafa unnið hörðum höndum að því að undirbúa stofnanir og breyta þjónustu í samræmi við bestu leiðbeiningar á hverjum tíma og áfram munum við vinna ötullega að því markmiði að tryggja bæjarbúum öryggi og eins góða þjónustu og hægt er miðað við aðstæður.
Í ljósi þeirrar staðreyndar að um 200 börn í grunnskólanum eru komin í sóttkví og á annan tug starfsmanna einnig þá hefur verið ákveðið að fella niður hefðbundna kennslu í skólanum á meðan að sóttkvíin varir eða til 24. mars. Kennarar sem ekki eru í sóttkví munu mæta í skólann á mánudag, í samræmi við skipulag skólastjórnenda. Lögð er áhersla á að kennarar sinni nemendum sínum eftir sem áður og hvetji þá til náms og virkni. Öll starfsemi frístundaskóla og félagsmiðstöðvar fellur einnig niður og takmörkuð starfsemi verður í íþróttamannvirkjum. Leikskólar verða opnir í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis en foreldrar hafa verið beðnir um að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna og þeir sem geta haft börn sín heima geri það til að létta á starfinu.
Bæjarskrifstofu hefur verið lokað fyrir almenningi og allar heimsóknir eru takmarkaðar svo hægt sé að tryggja órofna starfsemi eins og mögulegt er. Starfsmenn munu sumir hverjir sinna störfum sínum að heiman eða skiptast á að mæta.
Íbúar eru hvattir til að huga að smitvörnum og fylgjast með tilkynningum frá yfirvöldum og Hveragerðisbæ.
Nú er mikilvægt að við stöndum saman og reynum að gera þennan mikla óvissutíma eins bærilegan og nokkur er kostur. Við erum öll í erfiðri stöðu, þar er enginn undanskilinn. Við erum smeyk við hið óþekkta og hið óvænta.
Ég veit að þetta er erfiður tími og að óvissan er mikil bæði hvað varðar okkur sjálf, starfsumhverfið, samfélagið í heild og ekki síst þau veikindi sem veiran veldur. En núna sem aldrei fyrr en mikilvægt að við treystum þeim yfirvöldum sem eru að stýra baráttunni gegn veirunni. Þau eru með úthugsaða áætlun sem er mikilvægt að sé útfærð með réttum hætti. Ég trúi því einlæglega að við séum í eins góðum höndum og nokkur er kostur og við þurfum öll að hafa trú á okkar færustu vísindamönnum sem stýra þessari baráttu. Kostir okkar samfélags eru margir og við njótum forréttinda umfram margar aðrar þjóðir. Við búum að góðu heilbrigðiskerfi, sterku efnahagslífi, menntaðri og vel upplýstri þjóð og frábærri sveit viðbragðsaðila sem nú vinnur nær því ómanneskjulegt starf við afar erfiðar aðstæður.
Starfsmenn Hveragerðisbæjar eru tilbúnir til að leggja sig fram um að íbúar verði fyrir sem minnstum skaða í þessum fordæmalausu aðstæðum. Nú er mikilvægt að við stöndum saman og reynum að gera þennan mikla óvissutíma eins bærilegan og nokkur er kostur. Höldum utan um þá sem eru okkur næstir, hugum að nágrönnum, fylgjumst með þeim sem eru einir og án stoðkerfis. Í sameiningu vinnum við á þessum óboðna gesti og stöndum sterkari eftir sem samfélag.
Munum svo alltaf að "Þetta líður hjá ... ".
Með kærleikskveðju frá
Aldísi Hafsteinsdóttur
Bæjarstjóra