Fara í efni

Stefanía söng og spilaði til sigurs


Stefanía Dís Bragadóttir fór með sigur af hólmi í söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Skjálftaskjóls þann 25. október. Stefanía söng lagið Rip Tide, með Vance Joy, og spilaði sjálf undir á ukulele.

Stefanía mun því keppa fyrir hönd Skjálftaskjóls á USSS (Undankeppni Suðurlands fyrir Söngkeppni Samfés) þann 30. nóvember næstkomandi, en keppnin fer að þessu sinni fram á Höfn í Hornafirði. Efstu þrjú atriðin í þeirri keppni taka svo þátt í Söngkeppni Samfés í Reykjavík næsta vor.

Auk þess að syngja og spila sigurlagið hljóp Stefanía í skarðið fyrir annan söngvara sem varð að hætta við á síðustu stundu vegna hæsis, og söng lagið Sunflower við ukulele undirleik Ólafar Ránar Pétursdóttur.

Aðrir keppendur voru Júlía Ingvarsdóttir sem söng When I was your Man (Bruno Mars), Regína Lind Magnúsdóttir sem söng Back to Black (Amy Winehouse), Signý Ólöf Stefánsdóttir og Jónína Njarðardóttir með lagið Hata að hafa þig ekki hér (Friðrik Dór) og Ingibjörg Ólafsdóttir sem söng Make You Feel My Love (Adele).

Allir keppendur stóðu sig einstaklega vel og atriðin voru hvert öðru frambærilegra og skemmtilegra. Dómnefndin mátti því hafa sig alla við í vali sínu, en hana skipuðu söng- og leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir, tónlistar- og útvarpsmaðurinn Guðleifur Guðmundsson, Gígja Marín Þorsteinsdóttir, sigurvegari síðustu keppni, og Berglind María Ólafsdóttir, sviðslistakona og starfsmaður Skjálftaskjóls.

Auk keppnisatriðana sex voru tvö tónlistaratriði á dagskránni, áhorfendum til skemmtunar. Haukur Davíðsson rappaði í upphafi kvölds og Gígja Marín söng sigurlagið úr síðustu keppni.

Kynnar kvöldsins voru Gabríela Birta Kristjönudóttir og Sigríður Kristín Hallgrímsdóttir.

Myndirnar eru teknar af Elínu Ester sem stýrir starfsemi Skjálftaskjóls en hún sendi jafnframt þessa góðu frétt um þennan skemmtilega viðburð.


Síðast breytt: 30. október 2018
Getum við bætt efni síðunnar?