Sorpmálin rædd á Hótel Örk
Íbúafundur um nýtt kerfi úrgangsflokkunar var haldinn á Hótel Örk á dögunum þar sem fulltrúar frá Íslenska Gámafélaginu kynntu tilhögun þessa nýja kerfis. Hér má nálgast upptöku af fundinum
Vel var mætt á fundinn sem hófst á því að Geir Sveinsson bæjarstjóri Hveragerðisbæjar bauð gesti velkomna og fór yfir hin nýju Hringrásarlög sem tóku gildi á landsvísu í byrjun þessa árs og hvaða áhrif þau hafa hér í Hveragerði í meginatriðum. Markmið þeirra er að draga úr úrgangi til urðunar og stuðla að myndun endurvinnslusamfélags á landinu öllu.
Í upphafsorðum sínum fór Geir inn á það að úrgangur sé í raun auðlind sem unnt sé að nota aftur og aftur en ekki eingöngu efni til urðunar. Helstu breytingarnar sem Hvergerðingar munu finna fyrir eru þær að fjórða tunnan bætist við hvert heimili og verður hver tunna sérmerkt samkvæmt samræmdu flokkunarkerfi í landinu.
Þegar hefur verið borinn út bæklingur á öll heimili í Hveragerði þar sem hið nýja flokkunarkerfi er skýrt og hvað má fara í hverja tunnu. Eins kemur þar fram hvaða möguleikar eru á stærðum íláta og hvernig samsetningar er hægt að notast við.
Gerður hefur verið samningur við íþróttafélagið Hamar um að dreifa nýju tunnunum og sjá til þess að allar tunnur í bænum séu rétt merktar og stendur sú vinna yfir þessa dagana.
Jón Þórir Frantzson forstjóri Íslenska Gámafélagsins fór ítarlega í saumana á lagabreytingunum, flokkunarkerfinu og fyrirkomulagi þess áður en opnað var fyrir spurningar úr sal. Ekki var annað að sjá en að Hvergerðingar væru áhugasamir um hið nýja kerfi því heilmiklar umræður urðu um kerfið, kostnaðinn og ekki síst hvað má fara í hverja tunnu.
Eftir 1. nóvember verður hægt að óska eftir tunnubreytingum á þar til gerðu eyðublaði inn á íbúagátt Hveragerðisbæjar.