Skólastefna í vinnslu - athugasemdir óskast
Kæru íbúar
Starfshópur um gerð skólastefnu Hveragerðis hefur frá því á seint á síðasta ári unnið að því að endurskoða og móta skólastefnu sveitarfélagsins. Endurskoðunin byggir á eldri skólastefnu, opnum fundi með íbúum, viðtölum við nemendur, gögnum frá skólaþingum nemenda og fundum með kennurum og stjórnendum.
Fjórðu drög liggja nú fyrir og að þessu sinni leitar starfshópurinn til íbúa og óskar eftir hugmyndum að leiðarstefi skólastefnu sveitarfélagsins og efnislegum athugasemdum. Opið verður fyrir athugasemdir til 1. febrúar en þá tekur starfshópurinn til við að ljúka textagerðinni.
Stefnudrögin má sjá í heild sinni hér fyrir neðan og þar má einnig senda tillögur að leiðarstefi fyrir skólastarf í Hveragerði með einföldum hætti.
Með fyrirfram þökk fyrir ykkar framlag
Starfshópurinn
Skólastefna Hveragerðis
Drög nr. 4 - 19. janúar 2022
Skólastefnu Hveragerðisbæjar er ætlað að stuðla að markvissu og framsæknu skólastarfi þar sem allir sem málið varðar stilla saman strengi. Velferð barna og ungmenna bæjarins er í fyrirrúmi og hagsmunir þeirra eiga að vera öllum leiðarljós sem veita stefnu þessari brautargengi. Skólastefnan er afrakstur af samvinnu bæjarbúa, nemenda, og starfsfólks skólanna í Hveragerði. Hún gildir um allt skólastarf í bæjarfélaginu og á því jafnt við um leik-, grunn-, frístunda- og tónlistarskóla.
Lögð er áhersla á að stefnan sé skýr og að henni sé fylgt með markvissum hætti í öllu fræðslustarfi sveitarfélagsins með tímasettri aðgerðaáætlun og ítarlegum gæðaviðmiðum sem byggja á markmiðum hennar. Stefnan felur í sér leiðsögn til þeirra sem annast framkvæmd einstakra þátta skólastarfsins en veitir einnig nægilegt svigrúm til útfærslu þess með þarfir og færni nemenda að leiðarljósi. Með því að byggja innleiðinguna á kerfisbundnu innra mati er tryggt að innleiðing skólastefnunnar byggist á styrkleikum hvers skóla fyrir sig.
Það er viðfangsefni sveitarfélagsins að veita stuðning við að innleiða áherslurnar og fylgja þeim eftir með samstarfi við skólana og stuðningi við starfsþróun. Reglubundið innra mat er lykiltæki sveitarstjórnarmanna til að sinna eftirlitshlutverki sínu á gagnsæjan og faglegan máta.
Skólastarf í Hveragerði á að vera í fremstu röð. Í skólastarfinu er byggt á þeirri sérstöðu sem bæjarfélagið býr yfir, náttúru, umhverfi og sérstakri sögu bæjarfélagsins. Vilji bæjaryfirvalda og starfsmanna á fræðslusviði er skýr. Við tökum sameiginlega ábyrgð á börnunum okkar og viljum búa þeim bestu skilyrði til menntunar og þroska. Til þess er þessi stefna sett. Að því marki viljum við stefna.
Starfshópur um gerð skólastefnu Hveragerðis
Alda Pálsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Gunnar Biering, Ninna Sif Svavarsdóttir og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson.
Leiðarstef….
Hvert getur leiðarstef skólastefnu Hveragerðis verið?
Starfshópurinn leitar eftir hugmyndum frá íbúum Hveragerðis. Til að taka þátt þá má senda tölvupóst á mottaka@hveragerdi.is
eða með því að setja inn tillögur ykkar inn á Mentimeter hér:
Öruggt og hvetjandi námsumhverfi
Skólastarf í Hveragerði einkennist af lífsgleði, virðingu, vináttu, sköpun, og samstarfi skólanna við íbúa og atvinnulíf í sveitarfélaginu. Nemendur búa við öryggi og umhyggju. Vellíðan og virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins er auðsjáanleg í leik, námi og viðfangsefnum nemenda. Skólastarf ber skýr einkenni gæðastarfs.
Meginmarkmið skólastefnu Hveragerðisbæjar er að efla og styðja við nemendur sveitarfélagsins í öruggu samfélagi þar sem fjölbreytileikinn fær að njóta sín.
- Að unnið sé með framtíðarfærni nemenda og lykilhæfni á öllum skólastigum.
- Að innra mat sé kerfisbundið og samofið skólastarfi, jafnt í leikskólum, grunnskóla, tónlistarskóla og í frístundastarfi.
- Að umbætur og þróunarstarf byggi kyrfilega á gögnum um innra og ytra mat.
- Að veita starfsfólki tækifæri til starfsþróunar í samræmi við áherslur skólastefnunnar.
- Að auka samþættingu námsgreina kerfisbundið með verkefnum sem hafa augljósan tilgang og merkingu.
- Efla málþroska og lestrarfærni allra barna.
- Að leikur, nám og kennsla sé í fremstu röð.
- Að sýnt sé fram á með áreiðanlegum gögnum að skólastarf og vellíðan fari saman.
- Að grunnþættir menntunar birtist með skýrum hætti í starfsemi skólanna.
Stuðningur við gæðastarf og vellíðan
Menntastofnanir Hveragerðisbæjar eiga að vera framsæknar og mæta persónumiðuðum þörfum allra barna. Stöðug áhersla er lögð á að bæta gæði náms og kennslu og að leikur sé þar ekki undanskilinn. Vellíðan og velferð barna er ávallt í öndvegi. Hlustað er á raddir barna og komið til móts við þarfir hvers og eins með fjölbreyttum starfsháttum. Áhersla er á samþættingu námsgreina og sköpun.
Grunnþættir menntunar
Nemendur bera stigvaxandi ábyrgð á eigin heilbrigði og velferð og verða sífellt læsari á umhverfi sitt. Nemendur bera virðingu hver fyrir öðrum og sjá og skilja mikilvægi jafnréttis og lýðræðislegs samstarfs með mannréttindi að leiðarljósi. Sköpun er eðlilegur þáttur í skólagöngunni. Nemendur skilja hvert hlutverk þeirra er við að ganga vel um jörðina og sinn þátt í sjálfbærni heimsins. Þannig ákvarða grunnþættir menntunar viðfangsefni nemenda frá leikskóla og út grunnskólagönguna.
Þjálfun í framtíðarfærni
Frá fyrstu skrefum skólagöngunnar er lögð áhersla á sjálfstæði og ábyrgð nemenda á eigin verkum og námi. Börn fá tækifæri til þess að tjá sig í gegnum verkefni sín og miðla verkum sínum áfram til skólaumhverfisins. Skapandi og gagnrýnin hugsun er rauður þráður í verkum nemenda og þeir þjálfast í að nýta áreiðanlega miðla og upplýsingar úr umhverfi sínu. Sjálfstæði og samvinna helst hönd í hönd og eflist eftir því sem líður á skólagönguna. Nemendur taka virkan þátt og vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og að áherslum sveitarfélagsins um heilsueflandi samfélag.
Velferð starfsfólks
Starfsfólk skóla skal búa við góð vinnuskilyrði og njóta markvissrar starfsþróunar. Mikilvægt er að starfsfólk eigi kost á sérfræðiráðgjöf vegna sértækra þarfa nemenda og ekki síður til að bæta gæði almenns náms og kennslu. Velferð starfsfólks er lykillinn að góðu skólastarfi.