Fara í efni

Samningur undirritaður um Landsmót 50+


Forsvarsmenn Hveragerðisbæjar, UMFÍ og HSK skrifuðu undir samning um Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í blómabænum Hveragerði næsta sumar. Gert er ráð fyrir miklum fjölda þátttakenda á mótið. Eins og nafnið gefur til kynna er mótið hugsað fyrir þátttakendur á aldrinum 50 ára og eldri. Boðið verður upp á fjölda íþróttagreina, allt frá sundi og bridds til þríþrautar. HSK er mótshaldari og er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið á svæði HSK.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði mótið hafa stækkað mikið frá því það var fyrst haldið og viðburðum í tengslum við það fjölgað. Mótið sýni að eftirspurn er eftir fjölbreyttu íþróttamóti hjá þessum aldurshópi.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, sagði eftir að hún skrifaði undir samninginn vera spennt fyrir mótinu og bæjarbúa hlakka til.

Undirbúningur í Hveragerði er kominn vel á veg og er þegar búið að skipa sérgreinastjóra margar greinar mótsins, að sögn Guðríðar Aadnegard, formanns HSK.

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið helgina 23.-25. júní 2017. Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ var haldið á Hvammstanga árið 2011. Á þessu ári var það haldið í byrjun júní á Ísafirði. Mótið í Hveragerði verður sjöunda mótið fyrir 50 ára og eldri sem UMFÍ heldur.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Hauk Valtýsson, formann UMFÍ, Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, Guðríði AAdnegaard, Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi og Friðrik Sigurbjörnsson, formaður Menningar-, íþrótta- og frístundanefndar með honum á myndinni er Ragney Þóra dóttir hans á fyrsta ári.


Síðast breytt: 28. nóvember 2016
Getum við bætt efni síðunnar?