Samningar við FOSS samþykktir
Í ljósi umræðu undanfarið um verkfallsbaráttu stéttarfélagsins Eflingar er rétt að eftirfarandi komi fram.
Enginn starfsmaður Hveragerðisbæjar er í Eflingu. Þess vegna er öll umfjöllun um verkfallsaðgerðir Eflingar hér í Hvergerði afar undarleg svo vægt sé í árina tekið!
Hér í Hveragerði eins og víðast hvar annars staðar á landinu er búið að semja um kjarabætur til handa þeim starfsmönnum bæjarins sem eru í bæjarstarfsmannafélögum, hér FOSS, og verður greitt út í samræmi við þann samning núna um mánaðamótin.
Samningurinn er afturvirkur frá 1. janúar 2020 er í anda lífskjarasamningsins sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um nýverið með myndarlegri aðkomu ríkis til dæmis hvað varðar húsnæðismál, bótakerfið og fleira og tryggir hann sérstaklega þeim sem lægst hafa launin kjarabætur.
Samningurinn sem gerður var við FOSS tryggir í kringum 30% launahækkun á samningstímanum.
Önnur atriði m.a. fela í sér:
Persónuuppbót fyrir tímabilið 1. ágúst 2019 til 31. desember 2019, kr.105.000, sem greiðist þann 1. apríl 2020 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf frá 1. ágúst 2019 til 31. desember 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall. Samið var um að launagreiðandi greiði mánaðarlega framlag í Félagsmannasjóð sem nemur 1,24% af heildarlaunum starfsmanna. Greitt er út sjóðnum til þeirra sem sækja um fyrir 1. febrúar ár hvert. Allir fá 30 daga sumarfrí. Samið var um styttingu vinnuvikunnar svo fátt eitt sé talið.
Með von um að ofangreint skýri stöðu Hveragerðisbæjar og taki af öll tvímæli um samninga starfsmanna bæjarfélagsins.
Aldís Hafststeinsdóttir
Bæjarstjóri