SALOMON HENGILL ULTRA fer fram um helgina
02.06
Frétt
LENGSTA OG FJÖLMENNASTA UTANVEGAHLAUP LANDSINS fer fram um helgina.
- ALLT MÓTIÐ Í BEINNI ÚTSENDINGU
- DANSKA LANDSLIÐIÐ Í HENGIL ULTRA
- SÖLUSÝNING OPIN ÖLLUM Á LAUGARDAG
- HVERAGERÐI IÐAR AF LÍFI UM HELGINA
Það styttist í Salomon Hengil Ultra en það er lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup á Íslandi. Mótið verður ræst í miðbæ Hveragerðis núna á föstudag kl 14:00 þegar hlauparar í 100 mílna (163 km) vegalengdinni verða ræstir. Síðan verða um 200 keppendur, í 106 km hlaupi og miðnætur útgáfum nokkurra vegalengda, ræst klukkan 22:00. Á laugardaginn eru ræsingar klukkan 08:00, 10:00, 13:00 og 14:00 í fjölda vegalengda en langstærsta ræsingin er klukkan 13:00 þegar rúmlega 500 keppendur hlaupa af stað í 26 km hlaupið. Skráðir þátttakendur í mótinu öllu eru komnir yfir eitt þúsund.
ALLT MÓTIÐ Í BEINNI ÚTSENDINGU
Allar ræsingar og helstu áfangar hlaupsins verða sendir út á Facebook Live og YouTube Live og hefjast allar útsendingar klukkutíma fyrir hverja ræsingu fyrir sig. Það er framleiðslufyrirtækið Skjáskot sem stýrir útsendingunni . Á föstudag verða útsendingar í tveimur hlutum. Sú fyrri fer í gang klukkan 13:00 og seinni útsendingin fer síðan í gang kl 21:00 og stendur til 22:45. Morguninn eftir fer útsending í gang uppúr 07:00 og stendur meira og minna yfir þangað til að öll hlaup hafa verið ræst og fremstu hlauparar lengstu hlaupanna verða komnir í mark. Þannig mun allt hlaupaáhugafólk um allan heim geta fylgst með ræsingum og framgangi hlaupsins frá upphafi og nánast til enda en útsending fer fram á Facebook svæði hlaupsins og á YouTube rás Víkingamótanna.
DANSKA LANDSLIÐIÐ KEPPIR Í HENGIL ULTRA
Í ár bregður til tíðinda því danska landsliðið í utanvegahlaupum hefur skráð sig til leiks og hingað koma því sterkustu utanvegahlauparar Danmerkur. Heimsókn danska landsliðsins er hluti af undirbúningi þeirra fyrir Evrópumótið í utanvegahlaupum sem fer fram á La Palma á Canary í byrjun júlí. Það er 47km hlaup með 2500m hækkun. Þetta danska lið er valið með það verkefni í huga og því munu þau hlaupa 26km hlaupið í Hengil Ultra en ekki lengri vegalengdir. Jafnframt mun hópurinn nýta Hengilssvæðið til æfinga. Max Boderskov einn liðsmanna danska liðsins er Íslendingum af góðu kunnur en hann vann Hvítasunnuhlaup Hauka sumarið 2019.
TRAIL RUNNING EXPO
Á laugardaginn verður TRAIL RUNNING EXPO í Íþróttahúsinu í Hveragerði í tengslum við Salomon Hengil Ultra. Þar verða nokkrar flottustu íþróttavöruverslanir landsins með mikið af úrvalsvöru á mjög góðum verðum. Allir eru velkomnir að skoða og gera góð kaup. Þar verður einnig sýnt frá mótinu á risa skjá og þar verða allar verðlauna afhendingar þannig að enginn missir af neinu.
DAGSKRÁ Í REYKJADALS LODGE
Allan laugardag verður hægt að fylgjast með hlaupurum Hengils Ultra hlaupa fram hjá Reykjadals Lodge og þau verða með Live útsendinguna okkar í gangi frá ræsingu og marklínu allan laugardaginn. Á laugardagskvöldið verður síðan Sycamore Tree með tónleika í Reykjadals Lodge. Fallegt kvöld við arineldinn á dásamlegum stað, fjórum mínútum frá Hveragerði í dalnum fagra. Sycamore Tree hefur spilað sig inn í hug og hjörtu landans á síðustu árum og er kvöldstund með þeim ósvikin skemmtun.
Frétt tekin facebook síðu Salomon Hengill Ultra Trail.
Facebook síða Salomon Hengils Ultra Trail
Síðast breytt: 2. júní 2022
Getum við bætt efni síðunnar?