Nýtt aðalskipulag undirritað
Nýtt aðalskipulag 2017-2029 fyrir Hveragerðisbæ hefur verið samþykkt og undirritað. Mun það taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum á allra næstu dögum.
Eftirfarandi er ávarp bæjarstjóra í hinu nýja aðalskipulagi.
Stundum er haft á orði að fjárhagsáætlun sé biblía bæjarfulltrúa og annarra þeirra sem fylgjast vilja vel með málefnum bæjarfélaga. Í því samhengi mætti því kannski segja að aðalskipulag bæjarfélags sé þá ígildi boðorðanna þegar kemur að stefnumörkun og ákvarðanatöku við uppbyggingu í bæjarfélagi. Hvoruga áætlunina ber að umgangast með léttúð heldur ber að virða þær stefnumarkanir sem þar eru lagðar fram.
Aðalskipulag Hveragerðis sem nú er fellt úr gildi var samþykkt árið 2006 og var með gildistíma til ársins 2017. Skipulagslög kveða á um að sveitarstjórnir skuli að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagi og á fundi bæjarstjórnar þann 11. desember 2014 var einróma samþykkt að ráðast í heildarendurskoðun þess. Helstu ástæður voru þær að skipulagstímabilið var að renna út, gerð nýrra deiliskipulaga kallaði oftar en ekki á samhliða breytingu á aðalskipulagi, íbúafjölgun á skipulagstímabilinu var ekki í samræmi við forsendur sem gert var ráð fyrir og því var kominn tími á að uppfæra spár um íbúaþróun til samræmis við núverandi stöðu og horfur. Spár í hinu eldra skipulagi um fjölgun gerðu ráð fyrir að íbúar bæjarfélagsins yrðu um 3.400 árið 2017. Efnahagshrun og búferlaflutningar landsmanna í kjölfar þess settu óneitanlega strik í reikninginn og gerðu það meðal annars að verkum að spár gengu ekki eftir. Þrátt fyrir það var íbúafjölgun í Hveragerði vel yfir landsmeðaltali.
Aðalskipulagið sem nú er fellt úr gildi gerði m.a. ráð fyrir stórfelldri uppbyggingu á svokölluðu Sólborgarsvæði og svæðum sunnan Suðurlandsvegar. Þegar uppbyggingaráform brustu ákvað bæjarstjórn leysa til sín Sólborgarsvæðið og fresta um sinn uppbyggingu þar. Í nýju aðalskipulagi er sérstök áhersla lögð á þéttingu núverandi byggðakjarna svo nýta megi sem best innviði bæjarins sem nú þegar eru til staðar s.s. gatna-, göngustíga- og veitukerfi. Með því móti má taka við hundruðum nýrra íbúa með hagstæðum hætti.
Helstu breytingar í nýja aðalskipulaginu felast í færslu Suðurlandsvegar niður fyrir Búrfellslínu. Með breytingunni verður til meira rými fyrir byggð á núverandi bæjarflöt og neikvæð sjón- og hljóðáhrif Suðurlandsvegar verða minni en áður. Góðar tengingar verða tryggðar undir veginn enda er síðar gert ráð fyrir nýjum atvinnusvæðum og íbúðarbyggð fyrir sunnan veginn.
Við skipulagsvinnuna var hófleg fjölgun íbúa höfð að leiðarljósi en þó var höfð í huga aukin ásókn á síðustu misserum í búsetu í nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins. Hveragerði hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun og því er brýnt að haldið sé fast í taumana þegar kemur að skipulagsmálum enda er það allra hagur að vel takist til og að ekki fjölgi í bæjarfélaginu umfram þolmörk innviða þess.
Bæjarstjórn er sammála um að Hveragerði skuli vera fjölskylduvænn, ferðamanna- og heilsubær þar sem áhersla er lögð á umhverfismál. Bæjarstjórn leggur áherslu á lágreista byggð með hlýlegu yfirbragði og að byggðin sé í góðu samræmi við þá náttúru sem umlykur hana. Áhersla er lögð á opin græn svæði í íbúðahverfum, greiðfærar gönguleiðir og gott umferðarskipulag með öryggi íbúa að leiðarljósi. Nýja aðalskipulagið styður áherslur bæjarstjórnar um að sérstaða Hveragerðisbæjar felst ekki hvað síst í staðsetningu bæjarins fjarri ströndum og í faðmi fjalla og leitast verði við að nýta hana með sem bestum hætti.
Endurskoðun aðalskipulagsins var unnin í góðu samstarfi við skipulagsnefnd, bæjarstjórn og með góðu samráði við íbúa Hveragerðisbæjar eins og lög kveða á um. Kynningar á íbúafundum voru ítarlegar og nýjustu vinnugögn, tillögur og aðrar upplýsingar voru ávallt aðgengilegar á heimasíðu bæjarins. Mikil samstaða var um þá stefnumörkun sem fram er sett í skipulaginu og um þær breytingatillögur sem náðu fram að ganga. Ágreiningur um öll meginatriði skipulagsins var lítill sem enginn. Því má segja að sú stefnumörkun sem fram kemur í nýja aðalskipulaginu og nær til ársins 2029, sé stefna okkar allra, íbúa Hveragerðisbæjar. Vinnan við heildarendurskoðun aðalskipulagsins hefur að mestu mætt á Guðmundi F. Baldurssyni skipulags- og byggingafulltrúa Hveragerðisbæjar. Bæjarstjórn samdi við Landform ehf. um ráðgjöf við endurskoðunina og hafa þau Oddur Hermannsson og Svanhildur Gunnlaugsdóttir borið hitann og þungann af þeirri vinnu. Þessir aðilar ásamt formanni skipulags- og mannvirkjanefndar, Eyþóri H. Ólafssyni og bæjarstjóra hafa skipað starfshóp um gerð aðalskipulagsins og hefur hann hist reglulega. Eru þessum aðilum öllum og öðrum þeim sem komið hafa að endurskoðun aðalskipulagsins s.s. ráðgjöfum Verkís hf. sem veittu ráðgjöf um umferðaröryggismál og Úlfi Óskarssyni, skógfræðingi, sem veitti ráðgjöf um friðun trjáa færðar bestu þakkir fyrir góð störf.
Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri