Fara í efni

Nýir fulltrúar í Öldungaráði hafa tekið til starfa


Nýskipað Öldungaráð Hveragerðisbæjar hittist þann 26. febrúar og tók þar með formlega til starfa. Í Öldungaráðið hafa verið kjörin til næstu fjögurra ára þau Helgi Þorsteinsson, Sæunn Freydís Grímsdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttur, tilnefnd af bæjarstjórn, Kristín Dagbjartsdóttir, Egill Gústafsson og Sigurður Valur Magnússon, tilnefnd af Félagi eldri borgara og Sólrún Auðbertsdóttir, fulltrúi heilsugæslu.

Á fundinum var Helgi Þorsteinsson, kosinn formaður en að öðru leyti mun hópurinn skipta með sér verkum á næsta fundi.

Hveragerðisbær hefur nýverið endurnýjað stefnu bæjarfélagsins í málefnum eldri borgara og gildir hún til ársins 2022. Í stefnunni kemur fram að markmiðið með stefnumótuninni er að íbúum Hveragerðisbæjar sé ljóst hvaða framtíðarsýn bæjarfélagið hefur varðandi málefni aldraðra og hvað eigi að koma til framkvæmda næstu árin.

Stefnan miðar að því að efla og styrkja þá þjónustu sem þegar er til staðar.
Í samræmi við lög um málefni aldraðra leggur Hveragerðisbær áherslu á að aldraðir geti lifað eðlilegu heimilislífi við fullt sjálfræði á eigin vegum, svo lengi sem hægt er, en að þeir eigi jafnframt völ á nauðsynlegri stofnanaþjónustu í heimabyggð eftir því sem við verður komið.

Öldungaráð Hveragerðisbæjar hefur verið starfandi í nokkur ár og hefur það stutt dyggilega við bæjarstjórn þegar kemur að ákvarðanatöku. Er nýjum ráðsmönnum óskað velfarnaðar í störfum sínum.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Á myndinni má sjá nýja stjórnarmenn í Öldungaráði.


Síðast breytt: 26. febrúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?