Nýjungar á leiksvæðum samþykktar
10.04
Frétt
Bæjarráð hefur samþykkt að ráðist verði í úrbætur á leikvöllum bæjarins á vormánuðum. Er hér um að ræða framkvæmdir sem samþykktar voru í fjárhagsáætlun en vonast er til að þeim verði öllum lokið í byrjun maí:
- Lagt verður efnið polypropylene surface courty 2 á körfuboltavellina við grunnskólann í samræmi við ákvörðun fjárhagsáætlunar ársins 2022. Slíkur völlur er fjölnotavöllur og mun nýtast fyrir körfubolta, blak, skotbolta, skallatennis og fleira. Tilboð hefur borist í slíkan völl og nemur það um 4 m.kr. Mun völlurinn á allan hátt verða betri með hinu nýja efni heldur en nú þegar spilað er á malbiki.
- Settur verður upp battavöllur á malbikaða planið á Hólaróló. Slíkir vellir njóta mikilla vinsælda meðal barna en þar er hægt að iðka alls konar útivist og íþróttir.
- Tvö lítil leiktæki verða sett upp við Hlyninn eina við Heiðmörk, á opið grænt svæði sem þar verður útbúið. Um leið verður gengið frá umhverfi hins hellulagða útivistarsvæðis sem þarna er og hlyninum gerð skil á upplýsingaskiltum sem sett verða utan á spennistöð sem þarna er. Samþykkt Rarik vegna þess liggur fyrir.
Það er fyrirtækið LTS sem staðsett er hér í Hveragerði sem mun hafa veg og vanda af uppsetningu þeirra leiktækja og svæða sem samþykkt hafa verið.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.
Síðast breytt: 10. apríl 2022
Getum við bætt efni síðunnar?