Fara í efni

Nýárskveðja frá bæjarstjóra

Mynd: Pétur G. Markan
Mynd: Pétur G. Markan

af jarðarinnar hálfu
byrja allir dagar fallega
þolinmóð snýst hún og snýst
með trén og höfin og vötnin
eyðimerkurnar og eldfjöllin
okkur tvö og ykkur hin
og öll dýrin

(Pétur Gunnarsson, Splunkunýr dagur)

 

Á hverju tifandi augnabliki lífsins finnum við okkur sístætt frammi fyrir spurningunni hvað svo. Tímanum stöndumst við auðvitað ekki snúning og satt er að morgundagurinn er ekki alfarið í okkar höndum. En viðhorfið er ávallt okkar að velja og í því grundvallast farsæld manna. Þar sprettur líka upp af sömu rót velferð og menning okkar á milli. Velferð og menning snýst fyrst og fremst um lífsskoðun, ekki tekjuafgang og aflögugetu. Hveragerði er skapandi bær í blóma, hvernig sem árar í efnum. Það er einstök sérstaða. Á hrunárum Íslands mældist hamingja landsmanna meiri en á kaupárunum á undan. Meiri tengsl, minni neysla, meiri hamingja.

Við áramót stöndum við, sem oftar, frammi fyrir spurningunni hvað svo. Framundan er áætlun og markmið um sögulegt ár framkvæmda, framþróunar í stjórnsýslu og uppbyggingar í Hveragerði. Af hálfu Hveragerðisbæjar get ég lofað að hvergi verði slöku slegið við. Hvort sem það er af krafti í uppbyggingu, gæðum, fagmennsku og mildi í allri þjónustu, ábyrgð og festu í rekstri. Svo tekur lífið við og mótar daga og ár eftir eigin örlaga uppskrift. Okkar er hins vegar alltaf viðhorfið.

Af jarðarinnar hálfu byrja öll ár fallega.

Með þökk fyrir dásamleg kynni og starfsamt ár sem er að líða óska ég Hvergerðingum gleðilegs nýs árs.


Síðast breytt: 1. janúar 2025
Getum við bætt efni síðunnar?