Fara í efni

Niðurstöður í samkeppni um hönnun HNLFÍ

Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) í samvinnu við Arkitektafélag Íslands efndi í janúar 2020 til opinnar hugmyndasamkeppni um enduruppbyggingu Heilsustofnunar NLFÍ og framtíðarskipulag á landi NLFÍ í Hveragerði. Alls bárust 11 tillögur í samkeppnina og voru niðurstöður kynntar 3. júlí 2020 í Hveragerði.

Eftirfarandi tillögur hlutu verðlaun:

1. verðlaun: Arkþing-Nordic og Efla (36936)
2. verðlaun: T.ark arkitektar (00010)
3. verðlaun: Andrúm arkitektar (20002)

Innkaup og athyglisverð tillaga:

Innkaup: ASK arkitektar (19550)
Athyglisverð tillaga: Andersen & Sigurdsson Arkitekter og Verkís (20319)

Í texta um verðlaunatillöguna segir: 

Tillagan er vönduð, heilsteypt og vel unnin. Lögð er sterk áhersla á umhverfið og norður-suður ás, sem byggingarmassinn liggur að, er mótaður eftir bökkum
Varmár. Göngustígar og upplifun af umhverfi Varmár er vel útfærð sem hluti af meðferð dvalargesta en getur einnig þjónað bæjarbúum án þess að trufla
starfsemi Heilsustofnunar og heilsudvalarstaðar. Umferðartengingar og bílastæði eru vel leyst og á austur-vestur ási liggur sameiginlegur inngangur að
Heilsustofnun og heilsudvalarstað. Aðalinngangurinn er vel heppnaður með góðar tengingar bæði við meðferðarkjarna, sundlaug og heilsulind og beint
útsýni að Varmá og meðferðargörðum setur strax rétta tóninn. Tveggja hæða byggingarnar falla vel að umhverfinu jafnframt því að þétta byggðina og stytta
vegalengdir.

Við verðlaunaafhendinguna sem var fjölsótt og fróðleg flutti bæjarstjóri ávarp og fjallaði um mikilvæg tengsl og samstarf Heilsustofnunar og Hveragerðisbæjar í gegnum árin.  En Heilsustofnun er stærsti vinnustaður bæjarins og hefur með starfsemi sinni lagt rík lóð á vogarskálarnar þegar kemur að uppbyggingu Hveragerðisbæjar. 

Hér má sjá allar tillögurnar og lesa álit dómnefndar. 


Síðast breytt: 7. júlí 2020
Getum við bætt efni síðunnar?