Niðurdæling að hefjast í Gráuhnúkum
Fréttatilkynning frá ON - Orku náttúrunnar !
Niðurdæling á jarðhitavatni frá Hellisheiðarvirkjun í holu HE-55 hefst í desember. Niðurdælingin er í tilraunskyni og er liður í áætlun Orku náttúrunnar í breytingum á niðurdælingu Hellisheiðarvirkjunar. Niðurdælingin er innan gildissviðs regla OS-2016-R01-01 um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar vökva í jörðu um borholur. Niðurstaða frummats á jarðskjálftavirkni var að „hætta á finnanlegri skjálftavirkni er óveruleg" (sjá viðhengi). Samkvæmt verklagi okkar um niðurdælingu og reglum Orkustofnunar um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar vökva í jörðu um borholur er haft samband við hagmunaaðila til að upplýsa um niðurstöður úr frummati og/eða þegar um stærri breytingar á niðurdælingu er að ræða.
Unnið er eftir verklagi Orku náttúrunnar um gangsetningu niðurdælingarholu þar sem rennsli í niðurdælingarholurnar er aukið í skrefum. Nánari upplýsingum um tímasetningar verður dreift síðar. Staðbundið jarðskjálftanet er á virkjanasvæðinu til að fylgjast með hugsanlegum jarðskjálftum.