Fara í efni

Náttúrugöngur auka lífsgæði og vellíðan

Að ganga úti í náttúrunni skapar vellíðan, eykur góða skapið og minnkar kvíða. Við þurfum að gefa okkur að minnsta kosti um 30 mínútur á dag til að vera úti og hreyfa okkur. Í Hveragerði eru fjölmargar skemmtilegar og fallegar gönguleiðir og er tilvalið að fjölskyldan fari í göngu saman eða bara að njóta þess að ganga einn með sjálfum sér og anda að sér fersku lofti. Það er best að ganga af krafti eða að ganga á mismunandi hraða. Tilvalið að miða hraðaskiptin við ljósastaura: fara hratt á milli tveggja staura og hægar á milli næstu tveggja, 10 sinnum. Um leið eykst einbeiting, þol og vöðvastyrkur. Einnig má taka mislöng skref, fara upp og niður brekku og/eða lyfta hnjám í átt að kvið til skiptis.

Á heimasíðu Hveragerðisbæjar má finna upplýsingar um fjölbreyttar gönguleiðir í og við bæinn. Hver leið hefur sinn sjarma en við getum t.d. valið að fara heilsuhringinn sem liggur með fram Reykjafjalli, söguhringinn sem segir atvinnu- og listasögu bæjarins, hugleiða í steininum „Þetta líður hjá“ eða ganga á Hamarinn. Það er tilvalið að búa til þrautir eða getraun fyrir unga fólkið sem hvetur til að leita eftir upplýsingum á skiltunum í Listigarðinum eða á söguskiltunum.

Í lok sumars lauk frágangi á upplýstum göngustíg/tröppum upp Hamarinn að austan verðu. Það er ótrúlega fallegt að fara í ljósaskiptunum upp Hamarinn og horfa yfir bæinn. Oftar en ekki býður litadýrð himinsins upp á listaverkasýningu sem skapar tækifæri til að njóta, hlusta á náttúruna, hugleiða og gleyma stund og stað.

Munum að hreyfing þarf ekki að vera flókin – einfaldleikinn er oft bestur

Njótum lífsins og höfum gaman saman J

Jóhanna M. Hjartardóttir
menningar og frístundafulltrúi


Síðast breytt: 2. nóvember 2020
Getum við bætt efni síðunnar?