Miklar framkvæmdir í Hveragerði
Þrátt fyrir að efnahagslegt umhverfi hafi þróast með öðrum hætti en nokkurn gat grunað nú á vormánuðum er engan bilbug að finna á þeim fjölmörgu sem nú vinna að uppbyggingu og framkvæmdum í Hveragerði.
Gangi allar framkvæmdir ársins eftir eins og gert er ráð fyrir er ljóst að árið 2020 verður eitt alstærsta framkvæmdaár bæjarins frá upphafi.
Umfangsmikil gatnagerð á sér nú stað í Kambalandi en næsta úthlutun lóða í hverfinu mun eiga sér stað þann 2. júlí. Miðað við fyrirspurnir er ljóst að framkvæmdir munu halda áfram í hverfinu af krafti næstu misserin.
Athugulir hafa vafalaust tekið eftir að framkvæmdir við viðbyggingu við grunnskólann eru hafnar en þar munu rísa 6 nýjar kennslustofur á tveimur hæðum. Er aðdáunarvert að fylgjast með hversu vel framkvæmdin fléttast inn í Lystigarðinn Fossflöt sem gera mun að verkum að útsýni úr hinu nýja húsnæði verður einstaklega fallegt.
Framkvæmdir við nýja vatnslögn frá vatnstanki inn í Kambaland ganga vel en með tilkomu hennar verður einnig stórkostleg bót á göngustígnum sem nú verður að heilsársstíg með fallegri lýsingu.
Nýtt bílastæði á Árhólmum mun fara að taka á sig mynd fljótlega og framkvæmdir við algjöra endurnýjun á búningsklefum sundlaugarinnar Laugaskarði munu eiga sér stað í vetur.
Ýmis minni verkefni munu einnig sjást á vegum Hveragerðisbæjar sem gaman verður að kynna síðar.
Við Breiðumörk rís nú hið 3.000 m2 Greenhouse hotel með Mathöll Suðurlands á neðstu hæð. Herbergin eru komin, fullbúin, til Þorlákshafnar frá verksmiðjunni Moelven í Noregi, svo búast má við að gjörbreyting verði á aðkomunni inn í bæinn þegar þau raðast upp, hratt og vonandi vel. Sömu aðilar munu opna þjónustuhús á Árhólmum í sumar og þar með er tryggð góð þjónusta og aðstaða fyrir hina fjölmörgu gesti sem um svæðið fara.
Dvalarheimilið Ás hefur hafið framkvæmdir við byggingu nýs mötuneytis og eldhúss við Bröttuhlíð. Þar mun í framtíðinni verða eldaður matur fyrir íbúa á Ási og fyrir íbúa á heimilunum Grund og í Mörkinni í Reykjavík. Störf munu skapast á framkvæmdatíma og ný störf skapast í nýju eldhúsi að framkvæmdum loknum.
Veitur ohf hafa kynnt að framkvæmt verður í bæjarfélaginu fyrir um 850 m.kr. á næstunni og ber þar hæst byggingu nýs þjónustuhúss í Vorsabæ og uppsetningu á dælum í borholum sem tryggja eiga örugga orkuafhendingu í bæjarfélaginu.
Auk þessa eru fjölmargir aðilar að byggja íbúðarhúsnæði í bæjarfélaginu. Hús í Kambalandi eru orðin sýnileg og ljóst að þar eru að rísa fallegar byggingar á einstökum stað. Unnið er að þéttingu byggðar víða enda möguleikar til þess miklir. Fjöldi íbúða í byggingu slagar í eitt hundrað og enn fleiri eru væntanlegar.
Vinsældir Hveragerðisbæjar eru miklar og helgarrúntur austur fyrir fjall virðist vera að festa sig í sessi. Er afar ánægjulegt að verða vitni að þeim fjölda sem heimsækir Hveragerði um þessar mundir til að njóta alls þess sem bærinn hefur að bjóða. Vafa laust munu vinsældir bæjarins ekkert gera annað en að aukast á næstunni.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.