Fara í efni

Metfjöldi á Blómstrandi dögum

Það vantaði ekkert upp á fjörið og gleðina á Blómstrandi dögum um liðna helgi. Dagskráin var þétt frá morgni til kvölds í fjóra daga og þátttakan meiri en nokkru sinni. Hátíðin fór einstaklega vel fram og hefur fjöldi fólks aldrei verið meiri í bænum í tengslum við Blómstrandi daga. Það stendur upp úr eftir helgina hvað hátíðin gekk vel og hversu mikil gleði og ánægja var í loftinu. Við getum sannarlega verið glöð og þakklát fyrir að mörg þúsund manns hafi skemmt sér í sátt og samlyndi í þá fjóra daga sem hátíðin varði.

Skreytingaverðlaun

Að þessu sinni var óskað eftir tilnefningum að best skreytta húsinu/garðinum, frumlegustu skreytingunum og best skreyttu götunni. Fjöldi tilnefninga barst rafrænt og valdi menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fengu í hverjum flokki.
Verðlaunin voru ekki af verri endanum en allir sigurvegararnir fengu grillveislu frá SS og best skreytta húsið fékk að auki ísveislu frá Kjörís.
Best skreytta húsið/garðurinn var Borgarheiði 7v, frumlegasta skreytingin var að Þórsmörk 12 og loks var best skreytta gatan Valsheiði. Verðlaunahöfum er hér með óskað innilega til hamingju.

Samfélagsmiðlar

Instagram síða Hveragerðisbæjar, @hveragerdi.is, kom sterk inn og ánægjulegt hversu margir merktu bæinn í söguna sína á hátíðinni. Vonir standa til að vefurinn haldi áfram að vaxa og muni endurspegla samfélagið okkar hér í Hveragerði með jákvæðum hætti til framtíðar.

Þakkir

Hveragerðisbær vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn við að gera hátíðina eins glæsilega og raun ber vitni. Einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök í bænum hafa lagt sitt af mörkum með hinum ýmsu viðburðum, veitingum og uppákomum, að ógleymdum öllum skreytingunum sem settu svo mikinn svip á hverfi bæjarins. Blómstrandi dagar eru hátíð Hvergerðinga allra og það gerir hana einstaka.

Innilegar þakkir fyrir ánægjulega helgi. Við erum strax farin að hlakka til að fagna 30 ára afmæli Blómstrandi daga árið 2025.

Við viljum endilega heyra frá ykkur ef þið hafið góðar hugmyndir eða ábendingar um eitthvað sem má bæta á netfangið sigridurhj@hveragerdi.is. Þannig getum við í sameiningu gert hátíðina enn betri.


Síðast breytt: 19. ágúst 2024
Getum við bætt efni síðunnar?