Listasafn Árnesinga hlaut Menningarverðlaunin 2024
Listasafn Árnesinga hlaut menningarverðlaun Hveragerðisbæjar árið 2024 en verðlaunin eru afhent af menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd á hátíðahöldum 17. júní ár hvert. Listasafnið hefur um árabil verið einn af hornsteinum menningar í bænum með metnaðarfullum sýningum og fjölmörgum öðrum viðburðum.
Safnið heldur einnig úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum, listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Námskeið og smiðjur eru haldnar reglulega fyrir almenning þar sem gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins.
Listasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga, en öll sveitarfélögin í Árnessýslu eiga aðild að henni. Þau eru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus.
Það er mikið lán fyrir okkur Hvergerðinga að Listasafnið hafi verið staðsett í bænum frá árinu 2001. Hveragerðisbær hefur átt í góðu og virku samstarfi við safnið og því tímabært og afar ánægjulegt að veita Listasafni Árnesinga Menningarverðlaun Hveragerðis árið 2024.
Á meðfylgjandi mynd afhendir Marta Rut Ólafsdóttir, formaður menningar-, atvinnu- og markaðsnefndar, Kristínu Scheving, safnstjóra LÁ, Menningarstólpann.
Hveragerðisbær óskar Listasafni Árnesinga til hamingju með Menningarverðlaunin og hlakkar til áframhaldandi góðra tengsla og samstarfs um ókomna tíð.
Verðlaunagripurinn var sérhannaður af Hrönn Waltersdóttur listakonu í Hveragerði. Á gripnum er spjald með ígreyptum texta sem segir:
Listasafn Árnesinga
Menningarverðlaun Hveragerðis 2024
Menningarstólpi samfélagsins
Hrönn Waltersdóttir keramikhönnuður hannaði Menningarstólpann sem unninn er út frá aldagamalli aðferð sem kemur frá Japan og lýsir aðferðinni við gerð verksins með eftirfarandi hætti:
Stólpinn er rakubrendur úti undir berum himni í rakuofni sem er kyntur með gasi, þegar hann hefur náð í um það bil 1000°C á Celsíus er hann færður yfir í tunnu með viðarsagi þar sem glerungur fær á sig sprungur sem mynda munstrið á yfirborðið og reykurinn myndar svarta litinn í glerunginn. Stöpullinn sem er undir stólpanum er glattaður með terru og er brenndur í tunnu undir berum himni, þar sem hreinir viðar kubbar ásamt ýmsum öðrum lífrænum efnum er bætt við eldinn sem leika um hlutinn og mynda þessa óútreiknanlegu liti á verkið.
Þetta ferli er samspil listamanns og náttúru þar sem listamaðurinn fær engu ráðið um útkomu verksins í lokin, þar tekur náttúran völdin.
Burðarás samfélagsins
Hrönn segir Innblásturinn í verkið hafa komið til vegna menningarverðlaunanna sem Listasafn Árnesinga ætti að fá fyrir sín frábæru lista- og menningarstörf sem þar hafa verið unnin og það sem listasafnið hefur staðið fyrir.
„Fyrir mér sem listamann finnst mér að þarna vera burðarás samfélagsins þar sem hjartað slær og er líf og sál lista og menningar okkar allra sem hér búum,“ segir Hrönn og bætir við: „Hugsaði ég um menningarvita og einhvers konar súlu til að byrja með.“ Hún hafi svo farið á veraldarvefinn og í orðabækur til þess að finna réttu orðin til að vinna út frá. „Þar næst voru skissur unnar hver af annari. Fyrir valinu var svo að vinna út frá orðinu „Menningarstólpi“ því samkvæmt Árnastofnun stendur það orð fyrir drifkraft, burðarás, líf og sál og driffjöður samfélagsins. Allt eru þetta orð sem eiga vel við Listasafn Árnesinga,“ segir Hrönn.
Þá segir hún víða um heim hafa verið gerðar súlur og stólpar sem minjagripir fyrir minningu og menningu: „Hér er minn Menningarstólpi. Gamla aðferðin sem notuð er í verkið getur minnt okkur á hvað listir og menning hafa skipt okkar mannheim miklu máli frá örófi alda, blái liturinn er tákn trausts og súlan vísar á þann stað sem hún stendur á eða er miðpunktinn.“