Fara í efni

Málefnasamningur Okkar Hveragerðis og Framsóknar á kjörtímabilinu 2022-2026

Samningurinn er grundvallaður á stefnuskrám framboðanna fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022.

Okkar Hveragerði ( O - listi) og Framsókn (B - listi) munu á kjörtímabilinu fjárfesta í innviðum sveitarfélagsins samhliða íbúafjölgun. Ábyrgur rekstur verður í forgangi og lögð áhersla á opna og gagnsæja stjórnsýslu ásamt því að veita íbúum framúrskarandi þjónustu.

Megináherslur kjörtímabils:

Velferðar- og fjölskyldumál

  • Hækka frístundastyrk strax á nýju ári og vinna að því að hækka hann enn frekar þegar líður á tímabilið. Skoða skal sérstaklega frístundastyrk fyrir tekjulága.
  • Koma upp leikvöllum víðar um bæinn.
  • Koma upp ærslabelg að nýju.
  • Stefna að því að bjóða frían leikskóla í 6 tíma á dag.
  • Leggja áherslu á að öll börn komist inn á leikskóla við 12 mánaða aldur í samræmi við núgildandi markmið þar um. Greiddur verður styrkur með börnum sem komast ekki inn á leikskóla við 12 mánaða aldur, fram að úthlutun leikskólapláss.
  • Flýta uppbyggingu mannvirkja fyrir leik- og grunnskólastarf eins og þörf er á.
  • Skoða kosti varðandi uppbyggingu Hamarshallarinnar og annarra íþróttamannvirkja.
  • Tryggja fjölbreytt búsetuúrræði í Hveragerði, þ.m.t. að stuðla að fjölgun félagslegs leiguhúsnæðis og leiguíbúða í gegnum íbúðarfélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða.

Atvinna, nýsköpun og menning

  • Stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í Hveragerði, fjölga virkniúrræðum og hvetja fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.
  • Markaðssetja sveitarfélagið sem ákjósanlegan áfangastað fyrirtækja og ferðamanna.
  • Ráða atvinnu- og markaðsfulltrúa og endurreisa atvinnumálanefnd.
  • Leita leiða til að koma upp húsnæði með aðstöðu fyrir störf og nám án staðsetningar.
  • Tryggja að einstaklingar með fatlanir fái viðunandi stuðning til að starfa á fjölbreyttum vettvangi.
  • Leita leiða til uppbyggingar miðbæjarsvæðisins í samvinnu við rekstraraðila og íbúa.
  • Skapa aðstæður fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi í Hveragerði.
  • Styðja við menningarstarfsemi í bænum, svo sem bæjarhátíðir og stuðla að auknu framboði viðburða í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki.
  • Koma á fót fjölmenningarsamstarfi við nágrannasveitarfélög.

    Umhverfi
  • Endurskoða opnunartíma á gámasvæði með bætta þjónustu að markmiði.
  • Koma upp grenndargámum.
  • Vinna að tilfærslu gámasvæðis.
  • Laga hundasvæðin svo þau séu sveitarfélaginu og íbúum til sóma og útbúa sérstakt svæði fyrir smáhunda.
  • Kanna möguleika í hönnun svæðisins undir Hamrinum og byggja þar upp glæsilegt útivistarsvæði í áföngum.
  • Vinna áfram að kolefnishlutleysi Hveragerðis fyrir árið 2030.

 

Bæjarstjórn og stjórnsýsla

  • Auglýsa eftir og ráða bæjarstjóra á faglegum forsendum.
  • Gera úttekt á rekstri bæjarins til að greina tækifærin í að bæta rekstur og þjónustu og í framhaldinu móta stefnu um uppbyggingu þjónustu og innviða.
  • Viðhafa vandaða og ábyrga stjórnsýslu.
  • Opna bókhald bæjarins með það að markmiði að auka gagnsæi í stjórnsýslunni.
  • Endurskoða nefndir á vegum sveitarfélagsins með það markmið að efla og styrkja starfsemi þeirra.
  • Koma á ungmennaráði.
  • Koma á notendaráði í málefnum fatlaðs fólks eins og lög gera ráð fyrir.
  • Virkja samráð við íbúa með betri nýtingu íbúagáttar á vefnum eða íbúakosningum í stærri og veigameiri ákvörðunum, aukinni upplýsingagjöf til íbúa og reglulegum íbúafundum um málefni bæjarins.

Áframhaldandi samtal við ríkið og nágrannasveitarfélög um:

  • Að kláraðar verði framkvæmdir vegna tilfærslu Suðurlandsvegar.
  • Að fjölgað verði hjúkrunarrýmum í Hveragerði.
  • Flutningi fleiri ríkisstarfa frá höfuðborgarsvæðinu til Hveragerðis.
  • Að koma upp hjólreiðastígum í nánasta umhverfi Hveragerðisbæjar.
  • Mögulega sameiningu við nágrannasveitarfélög í samráði við íbúa.

Framtíðarsýn og leiðarljós:

  • Hveragerði er samfélag þar sem ungir sem aldnir geta lifað enn betra lífi í leik og starfi og eiga bæjaryfirvöld að styðja við fjölskylduvænt samfélag.
  • Mikilvægt er að bregðast við auknum fjölda nemenda í grunn- og leikskólum bæjarins á sama tíma og horft er til hagkvæmni í uppbyggingu húsakosts.
  • Öflug og virk þjónusta við eldri borga er einn af lykilþáttum velsældar Hveragerðisbæjar. Aðlaðandi samfélag fyrir eldri borgara er lykill að aldursvænum bæ þar sem öllum er kleift að taka virkan þátt í samfélaginu.
  • Hefja uppbyggingu á Sólborgarsvæðinu.
  • Tryggja samkeppnishæfa aðstöðu í íþróttastarfi í samræmi við raunhæfa framtíðarstefnu.
  • Að Hveragerðisbær sinni lögbundinni þjónustu með fullnægjandi hætti og að frumkvæðisskyldan sé virt.
  • Stefnumótun og þarfagreining á uppbyggingu grunnþjónustu og mannvirkja í takt við íbúaþróun.
  • Mikilvægt er að Hveragerðisbær setji sér metnaðarfull markmið um sókn í húsnæðismálum til að tryggja fjölbreytt þjónustu- og búsetuúrræði fyrir alla hópa samfélagsins.

Verkaskipting meirihlutans verður með eftirfarandi hætti:

  • Forseti bæjarstjórnar skipar Framsókn fyrsta og þriðja árið og Okkar Hveragerði annað og fjórða árið.
  • Formaður bæjarráðs skipar Okkar Hveragerði fyrsta og þriðja árið og Framsókn annað og fjórða árið.
  • Varaforseti bæjarstjórnar skipar Okkar Hveragerði fyrsta og þriðja árið og Framsókn annað og fjórða árið.
  • Varaformann bæjarráðs skipar Framsókn fyrsta og þriðja árið og Okkar Hveragerði annað og fjórða árið.
  • Formennska í Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd verður í höndum Framsóknar 2022-2024.
  • Formennska í Fræðslunefnd verður í höndum Okkar Hveragerðis 2022-2024.
  • Formennska í Kjörstjórn verður í höndum Framsóknar 2022-2024.
  • Formennska í Umhverfisnefnd verður í höndum Okkar Hveragerðis 2022-2024.
  • Formennska í Skipulags- og mannvirkjanefnd verður í höndum Framsóknar 2022-2024.

Framboðin skipta um formennsku nefnda Hveragerðisbæjar að tveimur árum liðnum.
Leitast verður við jafna skiptingu framboðanna í nefndir og stjórnir á vegum Hveragerðisbæjar og í samstarfsverkefnum með öðrum sveitarfélögum.

Málefnasamningur XO og XB


Síðast breytt: 14. júní 2022
Getum við bætt efni síðunnar?