Fara í efni

Loksins komið skautasvell

Unnið var hörðum höndum að gerð skautasvells í lok síðustu viku og um helgina. Það voru starfsmenn Hveragerðisbæjar og Úlfar Andrésson sem höfðu veg og vanda af gerð svellsins en Úlfar er öllum hnútum kunnugur í þessum geira verandi landsliðsmaður í íshokkí til fjölda ára.

Skautasvellinu hefur verið fundinn staður á strandblaksvellinum við hlið Sundlaugarinnar í Laugaskarði. Var svellið tilbúið til notkunar síðdegis í gær sunnudag og áfram verður unnið að því að viðhalda því á næstu dögum. Miðað við veðurspá ætti að vera rennifæri á nýja svellinu um næstu helgi.

Allir eru minntir á að fólk nýtir sér svellið á eigin ábyrgð og allir ættu einnig að vera með viðeigandi öryggisbúnað eins og hjálma.

Þessar flottu myndir voru teknar af Úlfari og Sighvati Nathanelssyni, starfsmanni íþróttamannvirkja, sem eins og Úlfar var vakinn og sofinn yfir gerð skautasvellsins um helgina.

Það er einstaklega jákvætt þegar íbúar setja fram góðar hugmyndir og bæjarfélagið getur þá gripið þær á lofti og í sameiningu vinnum við að því að gera góðan bæ enn betri.

Bæjarstjóri.


Síðast breytt: 4. febrúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?