Fara í efni

Loftorka átti lægsta tilboð í gerð Ölfusvegar

Frétt af vefnum www.sunnlenska.is 

Loftorka Reykjavík ehf í Garðabæ átti lægra tilboðið í gerð Ölfusvegar um Varmá en Vegagerðin opnaði tilboð í verkið í síðustu viku.

Tilboð Loftorku hljóðaði upp á 461,6 milljónir króna og var 5,4% yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem var 438,1 milljónir króna.

Íslenskir aðalverktakar hf. í Reykjavík buðu einnig í verkið. TIlboð þeirra hljóðaði upp á rúmlega 562,9 milljónir króna og var því 28,5% yfir kostnaðaráætlun.

Verkið felst í lagningu nýs vegar á um það bil 780 m löngum kafla frá gatnamótum Sunnumerkur og Dalsbrúnar í Hveragerði að gatnamótum Ölfusvegar við Ölfusborgir, ásamt byggingu nýrrar brúar yfir Varmá og reiðstígs undir brúna.

Hveragerðisbær hefur þegar samþykkt að taka þátt í kostnaði við frágang tenginga við vegakerfi bæjarins og er gerir bærinn ráð fyrir 47 milljónum króna til þess verks á komandi ári.

Verkinu á að vera að fullu lokið þann 12. september á næsta ári.


Síðast breytt: 27. desember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?