Fara í efni

Lóðum verður úthlutað í Kambalandi á árinu


Gatnagerð er hafin við fyrsta áfanga í Kambalandi og er áætlað að lóðum verði úthlutað þar á haustmánuðum í ár.

Í Kambalandi í heild sinni er skipulögð byggð fyrir um 750-1.000 manns í fjölbreyttri byggð og er ánægjulegt að þar skuli framkvæmdir nú vera hafnar. Það er Arnon ehf sem var lægstbjóðandi í verkið með tilboð er nam kr.130.526.300,- en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 140.576.928,- þannig að tilboðið nemur um 93% af kostnaðaráætlun.

Hveragerðisbær er eigandi landsins eftir að samningar náðust við Seðlabanka Íslands um kaupin á árinu 2018 og því er ljóst að bæjarfélagið getur stækkað mjög mikið á landi í eigu bæjarfélagsins á næstu árum. Í því ljósi er rétt að minna á að bæjarfélagið hefur á undanförnum árum einnig leyst til sín Sólborgarsvæðið þar sem fyrir liggur deiliskipulag fyrir um 1.500 manna byggð og leyst til sín erfðafestu á Friðarstöðum þar sem nú stendur yfir gerð deiliskipulags. Auk þessa hefur bæjarfélagið eignast Grímsstaðareitinn, Eden lóðina og Tívolí lóðina sem hefur gefið möguleika á uppbyggingu og þéttingu byggðar.

Eru þessi landakaup forsenda þess að bæjarfélagið geti stækkað og dafnað á eigin forsendum og eru þessi kaup bæjarins án vafa mjög farsæl til lengri tíma litið.

Í þeim áfanga sem nú er unnið að í Kambalandi er gert ráð fyrir fjölbreyttri byggð, raðhúsa, einbýlishúsa og fjölbýlishúsa (tveggja hæða)

Á myndunum má annars vegar sjá þær framkvæmdir sem hafnar eru í Kambalandi og hins vegar bæjarstjóra og Guðmund Arnar Sigfússon við undirritun samnings um framkvæmdina.


Síðast breytt: 21. maí 2019
Getum við bætt efni síðunnar?