Fara í efni

Led væðing götulýsingar í Hveragerði

Götulýsing í Hveragerði var á hendi RARIK í mörg ár eða allt frá því að Rafmagnsveita Hveragerðis var og hét. Árið 2020 fluttist götulýsingin svo til Hveragerðisbæjar enda kjarnastarfsemi RARIK framleiðsla og sala á rafmagni en ekki rekstur endabúnaðar.

Þegar farið var að kanna kerfið varð ljóst að það var í nokkuð misjöfnu ástandi og sumt komið mjög til ára sinna. Að auki er glóperutæknin á undanhaldi og jafnvel bannað að framleiða sumar gerðir pera sem algengar eru í ljósastaurum bæjarins þar sem þær innihalda kvikasilfur. Þetta leiddi til mikils viðhalds og erfiðleika við útvegun varahluta.

Það var því ákveðið að hefjast handa við að LED-væða kerfið í heild sinni en með því bæði sparast mikið rafmagn og vonandi minnkar viðhald til muna. Ákveðið var að bjóða út kaup á ljósunum annars vegar og uppsetningu hins vegar. Jóhann Rönning ehf varð hlutskarpastur þegar kom að ljósabúnaðinum sjálfum með ljós frá Thorn. Raftaug ehf bauð síðan best þegar kom að uppsetningu.

Nú árið 2022 verður skipt um 300 ljós á aðalgötum bæjarins og næsta sumar verða húsagötur, göngustígar og önnur svæði tekin fyrir en það eru tæplega 600 ljós. Margir ljósastaurar eru líka í ekki sem bestu ástandi og þarf að skipta um nokkra á sama tíma. Verkfræðistofan Lota ehf. annaðist útboðin.

Með þessum endurbótum verður kerfið fært inn á 21 öldina með vonandi miklum orkusparnaði, minni viðhaldskostnaði og öruggara kerfi fyrir bæjarbúa.

Umhverfisfulltrúi


Síðast breytt: 24. október 2022
Getum við bætt efni síðunnar?