Fara í efni

Kveikt á jólatrénu við fallega athöfn í Lystigarðinum

Það var falleg athöfn þegar tendrað var á jólatré Hveragerðisbæjar í Lystigarðinum á fyrsta sunnudegi í aðventu. 

Barnakór Hveragerðiskirkju söng falleg jólalög undir stjórn Unnar Birnu Björnsdóttur og þau yljuðu viðstöddum um hjartaræturnar í kuldanum úti. Pétur Georg Markan bæjarstjóri ávarpaði gesti þar sem hann fjallaði um aðventuna og fullveldisdaginn, 1. desember. Það var síðan Brynhildur Þula sem kveikti á jólatrénu en tréð er einmitt úr garði fjölskyldu hennar í Heiðarbrúninni. 

Þegar búið var að kveikja á trénu þótti augljóst að jólasveinarnir yrðu spenntir að sjá hvað væri að gerast svo kallað var á þá hástöfum í von um að þeir myndu mæta á svæðið. Það stóð ekki á þeim því eftir nokkur hróp og köll þá mættu fjórir forvitnir jólasveinar í miklu stuði og vöktu mikla lukku. Þeir sungu og skemmtu sér með krökkunum og gáfu þeim mandarínur áður en þeir hurfu aftur til Reykjafjalls enda er þeirra tími ekki alveg kominn því fyrsti jólasveinninn á ekki að koma til byggða fyrr en eftir 10 daga. 

Jólatré bæjarins í ár er 9 metra hátt sitgagreni sem var plantað við Heiðarbrún fyrir 45 árum síðan og það var fjölskylda hússins sem gaf tréð. Það eru Börkur Blöndal Hrafnkelsson, Dagný Steinþórsdóttir og börnin þeirra Hrafnkell Örn, Brynhildur Þula og Steinþór Freyr. Þeim eru færðar bestu þakkir fyrir þetta stórglæsilega jólatré. 

Lystigarðurinn er orðinn einstaklega jólalegur og fallegur og má svo sannarlega þakka starfsfólki áhaldahúss og garðyrkjudeildar fyrir sín góðu störf við að skreyta Lystigarðinn og bæinn allan svona fallega fyrir jólin. Það var síðan Raftaug sem skreytti tréð og Steinvélar ehf sem fluttu það á sinn stað frá Heiðarbrún í Lystigarðinn. 

Gleðilega aðventu!


Síðast breytt: 2. desember 2024
Getum við bætt efni síðunnar?