Fara í efni

Kristrún gengin til liðs við Roma


Það er ekki á hverjum degi sem íþróttamaður frá Hveragerði skrifar undir samning hjá stórliði erlendis. Því er full ástæða til að vekja athygli á því þegar slíkt gerist svo við getum öll glaðst yfir góðum árangri.

Nú hefur knattspyrnukonan Kristrún Rut Antonsdóttir gengið til liðs við ítalska félagið AS Roma og mun leika með liðinu í ítölsku úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

Kristrún gekk í raðir ítalska 1. deildarliðsins Chieti síðasta haust eftir að hafa verið valin leikmaður ársins hjá Selfossi árin 2016 og 2017. Þar lék hún 17 leiki og skoraði fimm mörk áður en hún sneri aftur til Selfoss í vor.

Kristrún hefur leikið sjö leiki með Selfossi í sumar og skorað eitt mark í þeim. Roma tilkynnti leikmannahóp sinn fyrir komandi tímabil í dag en þar var Kristrún Rut á meðal leikmanna.

Kristrún er 23 ára gömul og á að baki 93 leiki fyrir Selfoss, sem hún hefur skorað í 14 mörk.


Síðast breytt: 23. júlí 2018
Getum við bætt efni síðunnar?