Jól í bæ í Hveragerði
Framundan eru dagar ljósa og hátíðahalda. Sjálf aðventan og síðan jólin. Þetta er tíminn sem við bíðum í ofvæni eftir á hverju ári. Á þessum tíma gleðjumst við með þeim sem okkur þykir vænt um og njótum samveru með vinum og fjölskyldu á hinum fjölmörgu viðburðum sem vanalega eru í boði í bænum okkar.
Nú í ár upplifum við óviðráðanlegar aðstæður sem gera að verkum að hátíðin verður með allt öðru sniði en við erum vön. Veiran og takmarkanir á samkomum hefur breytt lífi okkar allra. En á sama tíma er mikilvægt að hætta ekki að gleðjast og hlakka til. Við sjáum fram á betri tíma og vonandi færir næsta ár okkur bæði bóluefni og heilan helling af ferðamönnum.
En á meðan að við bíðum eftir því þá er hægt að gera svo margt til að eiga góða og skemmtilega daga og til að búa til dýrmætar minningar fyrir ungu kynslóðina. Í ár hefur verið útbúinn skemmtilegur fjölskylduratleikur í Lystigarðinum Fossflöt þar sem tæknin er nýtt og símarnir fá stórt hlutverk þar sem leituð eru uppi listaverk í garðinum og svara þarf spurningum þeim tengdum. Hvetjum við alla til að eiga góða stund í Lystigarðinum, njóta jólaljósanna og þess umhverfis sem þar er.
Jólagluggar vítt og breitt um bæinn opna einn af öðrum í desember og það er gaman að leita þá uppi og taka síðan þátt í getrauninni sem þar er að finna. Fátt er síðan jólalegra en að fara í góðan göngutúr á milli þess sem við gæðum okkur á jólakræsingum. Þar er hægt að velja um gönguleiðir við allra hæfi, allt frá rölti á milli söguskiltanna í bænum, yfir í jólabað inn í Reykjadal.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar óska ég ykkur öllum yndislegrar aðventu.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri