Íþróttamaður ársins 2021, viðurkenningaathöfn
Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd býður til athafnar í Listasafni Árnesinga sunnudaginn 13. mars kl. 14. Íþróttafólk ársins 2021 verður heiðrað og tilkynnt verður hvaða íþróttamaður hlýtur sæmdarheitið íþróttamaður Hveragerðis 2021.
Eftirfarandi íþróttamenn eru í kjöri íþróttamanns Hveragerðis 2021:
- Dagný Lísa Davíðsdóttir fyrir góðan árangur í körfuknattleik
- Dagný Rún Gísladóttir fyrir góðan árangur í knattspyrnu
- Fannar Ingi Steingrímsson fyrir góðan árangur í golfi
- Hafsteinn Valdimarsson fyrir góðan árangur í blaki
- Haukur Davíðsson fyrir góðan árangur í körfuknattleik
- Óliver Þorkelsson fyrir góðan árangur í knattspyrnu
- Ragnheiður Brynjólfsdóttir fyrir góðan árangur í motocross
- Úlfar Jón Andrésson fyrir góðan árangur í íshokkí
Körfuknattleikskona Hveragerðis 2021 – Dagný Lísa Davíðsdóttir
Dagný Lísa fagnaði meistaratitli í mars með liði Wyoming Cowgirls í Mountain West deildinni í bandaríska háskólakörfuboltanum en Dagný Lísa hélt sautján ára út í nám í Bandaríkjunum og var hluti af meistaraliði Wyoming á lokatímabili sínu í háskólakörfuboltanum. Eftir frábær ár ytra lék Dagný Lísa með 1.deildar liði Hamars-Þórs en leikur nú í efstu deild í körfubolta með Fjölni. Í byrjun nóvember lék hún með A-landsliði Íslands í undankeppni EM. Dagný Lísa er frábær körfuknattleikskona sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni.
Dagný Rún Gísladóttir er knattspyrnukona Hveragerðis 2021
Dagný spilar lykilhlutverk í kvennaliði Hamars í knattspyrnu en hún var einnig driffjöður í stofnun liðsins 2019. Dagný hefur spilað 27 leiki fyrir Hamar, skorað 4 mörk og hefur verið fyrirliði liðsins frá stofnun þess. Hún er metnaðarfull og sannarlega flott fyrirmynd fyrir unga iðkendur.
Golfmaður Hveragerðis 2021 – Fannar Ingi Steingrímsson
Fannar Ingi er klúbbmeistari GHG karla. Hann setti meistaramótsmet og spilaði á 13 höggum undir pari sem er sennilega eitt besta skor á landinu í meistaramótum golfklúbba. Fannar Ingi tók þátt í nokkrum mótum á GSÍ mótaröðinni á árinu og var hans besti árangur 3. sæti í Leirumótinu á Hólmvelli hjá Golfklúbbi Suðurnesja.
Blakmaður Hveragerðis 2021 – Hafsteinn Valdimarsson
Hafsteinn Valdimarsson, fyrirliði karlaliðs Hamars í Hveragerði í blaki. Hann fór fyrir liði sínu þegar liðið vann sína fyrstu titla vorið 2021, varð bikarmeistari, deildarmeistari og hampaði Íslandsmeistaratitlinum í blaki karla. Hafsteinn var valinn í lið fyrri hluta tímabils 2021-2022 í desember sl. Einnig var Hafsteinn valinn í lið ársins hjá Blaksambandi Íslands. Hafsteinn Valdimarsson hefur auk þessa verið í þjálfun og var aðstoðarþjálfari U17 ára landsliðs drengja sem spilaði í mótum í haust. Hann er frábær fyrirmynd ungra blakara og svo sannarlega hægt að líta upp til hans.
Körfuknattleiksmaður Hveragerðis 2021 – Haukur Davíðsson
Haukur er ungur og efnilegur körfuboltamaður sem hefur vaxið mjög sem leikmaður undanfarið ár. Í tiltölulega ungu Hamarsliði hefur hann sýnt á þessu tímabili að hann er framtíðarleikmaður og aðili sem liðsfélagar geta leitað til. Hann var valinn í æfingahóp U18 ára landslið Íslands. Metnaður og eljusemi Hauks þykir til fyrirmyndar og er ljóst að framtíðin er björt hjá þessum unga og efnilega körfuboltamanni.
Knattspyrnumaður Hveragerðis 2021 – Óliver Þorkelsson
Óliver er fæddur árið 2005 leikur lykilhlutverk í meistaraflokksliði Hamars auk þess sem hann lék með 3.flokks liði Selfoss/Hamar/Ægir en þeir fögnuðu bikarmeistaratitli á árinu. Óliver fór til reynslu og æfði með erlendum liðum á árinu bæði til Horsens í Danmörku og De Graafschap í Hollandi en þeir buðu honum í framhaldinu samning og leikur hann með þeim núna. Það verður spennandi að fylgjast með Óliver sem er ótrúlega metnaðarfullur knattspyrnumaður.
Aksturíþróttakona Hveragerðis 2021 – Ragnheiður Brynjólfsdóttir
Ragnheiður byrjaði að hjóla fyrir nokkrum árum en hún æfir motocross með Umf. Selfoss. Ragnheiður hefur keppt tvö keppnistímabil í Íslandsmeistaramótinu í motocrossi í flokknum 30+ fyrst árið 2019 og svo aftur í ár og endaði í bæði skiptin í þriðja sæti. Ragnheiður er mikil fyrirmynd og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni.
Íshokkýmaður Hveragerðis 2021 - Úlfar Andrésson
Úlfar mjög góður íþróttamaður sem hefur verið félagi sínu Fjölnir-Björninn íshokkídeild til mikils sóma. Hann skilar alltaf gríðarlega góðum árangri í leikjum og hefur átt mikinn þátt í því að koma íshokkíliði meistaraflokks karla hjá Fjölnir-Björninn í fremstu röð á lands vísu. Liðið var í 2. sæti á Íslandsmótinu í vor en engin landsliðsverkefni voru á árinu v/covid. Úlfar Andrésson er fyrirmynd allra íþróttamanna.
Þeir íþróttamenn í Hveragerði sem unnið hafa Íslands- og/eða bikarmeistaratitil eða verið í landsliðum á árinu verða heiðraðir sérstaklega.
Allir velkomnir!
Með kærri kveðju,
f.h.menningar-, íþrótta- og frístundanefndar
Jóhanna M. Hjartardóttir
menningar- og frístundafulltrúi