Fara í efni

Íslenska er okkar mál


Bæjarráð Heragerðisbæjar hefur tekið undir nauðsyn þess að íslenska verði efld sem opinbert mál á Íslandi og áhersla lögð á að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Í ljósi þessa fagnar bæjarráð Hveragerðisbæjar framkominni þingsályktunartillögu mennta- og menningarmálaráðherra og vísar henni jafnframt til fræðslunefndar með þeirri ósk að fjallað verði um það í nefndinni hvernig skólar Hveragerðisbæjar geti eflt íslenskukunnáttu nemenda enn frekar en nú er gert.

Til fróðleiks má geta þess að í Grunnskólanum í Hveragerði er þegar í gildi eftirfarandi málstefna:

Íslenska er okkar mál.

Í Grunnskólanum í Hveragerði er lögð rækt við íslenskt mál.

Málfar í skólanum á að vera til fyrirmyndar og allt sem frá skólanum kemur á vandaðri íslensku. Vandað mál er markvisst og felst í viðeigandi orðavali, réttum beygingum og eðlilegri orðskipan. Í framburði málsins er gætt að skýrri hljóðmótun, réttum áherslum og eðlilegu hljómfalli samfellds máls.

Starfsmenn skólans nota íslensku í störfum sínum. Fundargerðir, minnisblöð og bréfaskipti eru á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.

Starfsmenn Grunnskólans í Hveragerði hafa aðgang að öllum helstu handbókum um íslenskt mál, svo sem íslenskri orðabók, stafsetningarorðabók og samheitaorðabók.

Bæjarstjóri


Síðast breytt: 7. janúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?