Íslenska gámafélagið mun sinna úrgangsþjónustu í Hveragerðisbæ
Samningur hefur verið undirritaður við Íslenska gámafélagið ehf sem taka mun við úrgangsþjónustu í Hveragerðisbæ þann 1. ágúst næstkomandi. Um er að ræða úrgangsþjónustu fyrir öll heimili og stofnanir Hveragerðisbæjar auk þjónustu við gámastöð sveitarfélagsins. Hjá öllum heimilum í bæjarfélaginu eru þrjú ílát, eitt fyrir óflokkaðan úrgang, annað fyrir flokkaðann og það þriðja fyrir lífrænan úrgang. Verktaki mun sækja allan úrgang til allra heimila og stofnana og ráðstafa honum til aðila sem hafa tilskilin starfsleyfi til móttöku og vinnslu. Tilboðsfjárhæð er 84,7 m.kr. á ári eða um 30.000,- pr. íbúa miðað við núverandi forsendur. Verktími samkvæmt samningi er þrjú ár en hægt er að framlengja samninginn tvisvar um eitt ár í senn ef um það semst.
Ljóst er að kostnaður vegna úrgangsmála hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum enda kröfur til meðhöndlunar og förgunar með allt öðrum hætti nú en áður var.
Í útboðinu nú var lögð áhersla á endurnýtingu og endurvinnslu en Íslenska gámafélagið hefur verið brautryðjandi í útflutningi á úrgangi til orkuendurvinnslu. Innihald gráu tunnu Hvergerðinga mun því í framtíðinni verða að rafmagni eða orku í sveitarfélögum í Danmörku eða annars staðar í Evrópu.
Til að minnka þann mikla kostnað sem felst í meðhöndlun úrgangs er mikilvægt að Hveragerðingar standi saman og reyni með öllum tiltækum ráðum að minnka það magn sem fer til orkuendurvinnslu eða aðra kostnaðarsama meðhöndlun. Það gerum við best með því að kaupa minna og vera meðvituð um umbúðir, endurvinna það sem hægt er og flokka með réttum hætti það sem fellur til. Í samningnum við Íslenska gámafélagið ehf er gert ráð fyrir fræðslu til íbúa og munu íbúar væntanlega verða varir við slíkt á haustmánuðum.
Hér má finna ítarlegar leiðbeiningar um flokkun í Hveragerði. Rétt síðan að rifja upp að það sem fer í grænu tunnuna á að fara laust í tunnuna, EKKI í plastpokum og ef við setjum eitthvað í plastpokum þá mega þeir ALLS EKKI vera litaðir. Litaðir plastpokar í grænu tunnunni geta orðið til þess að ekki er hægt að endurvinna og innihald grænu tunnunnar fer þá í ferli þar sem hvert kg kostar 46 krónur! Stöndum saman, minnkum magnið, flokkum vel og spörum peninga um leið sem hægt er þá að nýta í önnur og betri verkefni en úrgangsmeðhöndlun .
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri